138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

störf þingsins.

[12:02]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Fyrr í þessari viku innti ég hv. þm. Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, eftir styrkjamálum flokksins og hvernig flokkurinn hygðist endurgreiða þá styrki sem hann hefði þegið. Ef við tökum þetta mál aðeins lengra og út frá þeim upplýsingum sem formaður Sjálfstæðisflokksins veitti hér á Alþingi um að flokkurinn hygðist endurgreiða styrkina vaxtalaust og án verðbóta á sjö árum getum við gefið okkur það að ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði þurft að greiða stýrivexti Seðlabankans af þessum lánum sem þeim var ekki (Gripið fram í: … lánin.) ókunnugt um, enda var Seðlabankinn rekinn af fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins allt þar til honum tókst að keyra hann í þrot, væri þetta lán í dag upp á 94 millj. kr. Ef við miðuðum hins vegar núvirði endurgreiðslunnar við innlánsvexti Seðlabankans upp á 7% væri það í dag 45,3 millj. kr. Með öðrum orðum vantar tæpar 50 millj. kr., 48,7 millj. kr., upp á að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að endurgreiða styrkina á því virði sem hann þáði þá á. Hann ætlar að láta verðbólguna éta upp helminginn af endurgreiðslunni.

Ég spyr: Finnst þingmanninum þetta eðlilegur framgangsmáti hjá Sjálfstæðisflokknum, þessum stóra styrkjaflokki, sem þáði stærri styrki en nokkru sinni áður hefur þekkst í Íslandssögunni, að greiða aðeins helminginn af virðinu sem hann fékk í sjóði sína frá stórum fyrirtækjum í landinu? Hvernig stendur á því að Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að haga sér svona? Þessi kjör standa ekki öllum til boða. Það geta ekki allir valið sér kjör og lánstíma á lánunum sínum. (Gripið fram í.)

Enn þverskallast þingmenn flokksins við að upplýsa sín mál, gera hreint fyrir sínum dyrum um persónulega styrki. Ég segi og stend við það: Á meðan þingmenn flokksins neita að gera hreint fyrir sínum dyrum, (Forseti hringir.) meðan flokkurinn ætlar að haga sér með þessum hætti, eru viðkomandi þingmenn (Forseti hringir.) lítið annað en pólitískir málaliðar á þingi (Forseti hringir.) þeirra fyrirtækja sem styrktu þá.