138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

störf þingsins.

[12:04]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður reynir hér að naga gamalt bein og finna á því eitthvert kjöt, bein sem flokkur hans hefur reynt að naga síðan fyrir alþingiskosningarnar 2009, reyndar með ágætisárangri, fékk dálítið kjöt í kjaftinn og bætti við sig fylgi. Flokkurinn hans er reyndar í sárum núna eftir sveitarstjórnarkosningarnar (Gripið fram í.) þar sem Vinstri grænir eru ekki afgerandi í einu einasta sveitarfélagi um allt land og reynir núna að grafa upp gamalt bein til að sækja sér ný málefni til að velta upp í umræðunni. Styrkjamálin eru mál sem hafa verið í ágætisfarvegi í samstarfi formanna allra flokka.

Formenn allra flokka voru sammála um að opna bókhald stjórnmálaflokkanna aftur í tímann. Formenn allra flokkanna voru líka sammála um það á sínum tíma að setja um þessa hluti reglur á þinginu og upplýsa um fjárhagsleg tengsl þingmanna. Formenn allra flokka voru sammála um að beina þeim tilmælum til þingmanna sem höfðu tekið þátt í prófkjörum á árinu 2006 að opna bókhald sitt. Menn hafa opnað bókhaldið. En hv. þingmaður vill gera lítið úr því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi endurgreitt styrki sína.

Ég spyr hv. þingmann: Hvað með samstarfsflokkinn? Hvað með Samfylkinguna? Hvað með ofurstyrkina sem samstarfsflokkur hans í ríkisstjórn hefur ekki endurgreitt? Þykja honum styrkirnir sem Samfylkingin fékk frá Baugi og tengdum félögum hóflegir? Er hann búinn að núvirða það hversu mikils virði það er fyrir Samfylkinguna að hafa ekki þurft að endurgreiða þá? Hvaða vexti hefði Samfylkingin þurft að borga ef hún hefði endurgreitt þá með vöxtum og verðbótum? Er það þannig hjá hv. þingmanni að honum þyki styrkirnir til Samfylkingarinnar svo mátulegir og hóflegir að hann treysti sér til að starfa með henni í ríkisstjórn, að þar séu engir málaliðar fyrirtækjanna í landinu? Hvers konar rugl er þetta? Er ekki nær fyrir þingmanninn að líta sér nær og spyrja sig hvort það hafi ekki verið sanngjarnt og rétt og eðlilegt af Sjálfstæðisflokknum að taka þessa ofurstyrki og endurgreiða þá í samræmi við það sem ég hef áður gert grein fyrir? (Forseti hringir.) Enginn skyldaði okkur til að borga vexti eða verðbætur. Við gerum þetta á (Forseti hringir.) okkar forsendum með gegnsæjum hætti, (Forseti hringir.) nákvæmlega eins og ég hef áður gert grein fyrir.