138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

störf þingsins.

[12:13]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég verð að segja eins og er að mér finnst það fallega gert af hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni að vera hér sjálfskipaður tilsjónarmaður með sálarheill heils þingflokks. Við höfum svo sem heyrt þannig málflutning áður. (EKG: Ekki gerir Samfylkingin það.) Það er gott að Sjálfstæðisflokkurinn hefur fundið sér hlutverk í stjórnarandstöðu, það er ekki verra, frú forseti. En fækkun ráðuneyta er í stjórnarsáttmála Samfylkingar og Vinstri grænna og það hefur legið fyrir í heilt ár. Einn tiltekinn hæstv. ráðherra hefur lýst skoðunum sínum á málinu og hefur ekkert farið í launkofa með þær. Þær liggja fyrir en verkefni þingmanna í þessum sal er eftir sem áður, frú forseti, að hagræða og skera niður í ríkisrekstri. Er þá ekki ráð að byrja á toppnum, að byrja nú ekki á ræstingakonunum, frú forseti? Er þá ekki kannski ráð að fækka (Forseti hringir.) ráðherrum …?

(Forseti (ÁÞS): Forseti vekur athygli þingmannsins á því að sá forseti sem hér stendur er ekki enn þá orðinn frú.) [Hlátur í þingsal.]

Hæstv. forseti gæti náttúrlega vel verið frú en hæstv. herra forseti er hann samt. Ég biðst forláts.

En er ekki ráð, hæstv. forseti, að byrja á toppnum og standa nú við stóru orðin, ekki síst Sjálfstæðisflokkurinn sem telur sig kunna að hagræða í ríkisrekstri? Ríkisreksturinn stækkaði um tugi prósenta undir stjórn Sjálfstæðisflokksins (Gripið fram í.) í samstarfi við líklega fjóra flokka, lengst af í 12 ár við Framsóknarflokkinn. (Gripið fram í.)

Allra síðast ætla ég að biðja formann Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarna Benediktsson, sem er víst karlmaður, að koma ekki hingað og bjóða upp á þann málflutning að Samfylkingin hafi eitthvað falið í styrkjamálum. Það hefur verið gerð grein (Gripið fram í.) fyrir hverri einustu krónu. [Háreysti í þingsal.] Samfylkingin fékk ekki 50 millj. kr. frá neinum einum styrktaraðila. (Gripið fram í: … milljónir.) Samfylkingin fékk ekki 33 millj. kr. (Forseti hringir.) frá Landsbankanum eins og Samband ungra sjálfstæðismanna (Gripið fram í.) fékk á þremur árum. (Forseti hringir.) Það hefur verið gerð grein fyrir hverri einustu krónu, (Gripið fram í.) hver einasti þingmaður, það liggur (Forseti hringir.) allt á borðinu. Og (Forseti hringir.) hvenær ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að sýna á sín (Forseti hringir.) spil?