138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

störf þingsins.

[12:24]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það var ekki sá sem hér stendur sem vildi hefja umræðu um styrkjamál undir þessum dagskrárlið, það var hv. þm. Björn Valur Gíslason. Í fyrri ræðu minni áðan vakti ég athygli á því, vegna þess að hann gerði endurgreiðslu Sjálfstæðisflokksins á sínum styrkjum að umtalsefni, að Samfylkingin hefði tekið við mjög háum styrkjum en ekki endurgreitt neina þeirra. Þá brýst fram hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir og segir að Samfylkingin hafi ekkert að fela í þessum efnum. Ég hef ekki haldið því fram að Samfylkingin sé að fela neitt. Ég vakti bara athygli á því að hún hefur ekki endurgreitt neitt. Reyndar hefur fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar sagt við fréttamiðla að betra hefði verið að taka ekki við styrkjunum sem Samfylkingin fékk á árinu 2006 og að á sínum tíma hefði málið horft öðruvísi við en núna eftir á. Engu að síður hefur ekkert verið ákveðið með neinar endurgreiðslur.

Samfylkingin tók nefnilega við samtals 23,5 millj. kr. á árinu 2006 frá Baugi Group og tengdum aðilum, þ.e. FL Group, Glitni og Dagsbrún. Samfylkingin hefur ákveðið að endurgreiða ekki þá styrki. Þess vegna finnst mér nær fyrir hv. þm. Björn Val Gíslason að bera þessa spurningu upp við Samfylkinguna í stað þess að reyna að núvirða eða vaxtareikna endurgreiðslu Sjálfstæðisflokksins. Væri ekki nær fyrir hv. þingmann að velta upp þeirri spurningu: Eru 23,5 milljónir frá sömu fyrirtækjasamsteypunni ekki býsna há tala? Orkar það ekki tvímælis fyrir Samfylkinguna að hafa ekki endurgreitt þá fjárhæð og farið þannig að fordæmi Sjálfstæðisflokksins? Samfylkingin fékk auðvitað líka á sama ári 10 milljónir frá Kaupþingi og 8 milljónir frá Landsbankanum, fyrir utan að hafa tekið við 5,5 milljónum frá Actavis. (Forseti hringir.) Eru þetta þingmennirnir sem hv. þm. Björn Valur Gíslason (Forseti hringir.) vill meina að gangi erinda fyrirtækjanna í landinu? (Gripið fram í: Gerðu hreint fyrir þínum dyrum.)