138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

störf þingsins.

[12:29]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Undir lok síðasta árs krafðist minni hlutinn á Alþingi undir forustu Sjálfstæðisflokksins þess að fá hina mjög svo virtu lögfræðistofu Mishcon de Reya til liðs við sig vegna Icesave-málsins sem þá var til umræðu. Alþingi varð við óskum stjórnarandstöðunnar og sagðist greiða lögfræðistofunni fyrir viðvikið enda var fullyrt af hálfu stjórnarandstöðunnar að umrædd lögfræðistofa væri öðrum fremri á þessu sviði og til þess bærari en aðrar að varpa nýju ljósi á málið. Annað kom í ljós. (Gripið fram í: Hún vann fyrir ríkisstjórnina.) Pappírarnir streymdu reyndar úr tölvum stofunnar hingað til lands í hundraðavís (Gripið fram í: Hún vann fyrir ríkisstjórnina.) en reyndust við frekari skoðun einskis virði og ekki til að varpa nýju ljósi á málið að nokkru leyti. Látum það (Gripið fram í.) liggja á milli hluta, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson.

Fyrir þessa gagnslausu vinnu greiddi Alþingi 22 millj. kr. (Gripið fram í.) eftir að hafa náð að kría út afslátt hjá lögfræðistofunni. Það var hins vegar greinilegt á þessum tíma að umrædd lögfræðistofa, Mishcon de Reya, hafði náin tengsl hingað til lands, til stjórnarandstöðunnar, og nokkuð ljóst hvert þau tengsl lágu. Því langar mig til að spyrja hv. þingmann — ég tek það fram að ég var ekki búinn að vara hv. þingmann við þessari spurningu og ætlast ekki til þess að hann svari hér og nú. (Gripið fram í.) Ég varpa þeirri spurningu til hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar í þessu sambandi: Hver, ef einhver, hafa tengsl hans við þessa lögfræðistofu verið? Átti hv. þingmaður einhver samskipti við lögfræðistofuna Mishcon de Reya á þeim tíma þegar hann var aðstoðarmaður formanns Sjálfstæðisflokksins eða meðan hann gegndi þingmennsku fyrir Sjálfstæðisflokkinn, og hver voru þessi tengsl?

Síðast en ekki síst, í ljósi viðhorfa þingmannsins til styrkjamála, þeirrar umræðu sem hefur verið á þingi og þeirrar háu upphæðar sem Alþingi greiddi lögfræðistofunni fyrir enga vinnu: Þáði hv. þingmaður einhverjar greiðslur frá stofunni fyrir vinnu hans og (Gripið fram í.) og aðkomu að málinu? (Forseti hringir.) Ég óska eftir því að þingmaðurinn svari þessari spurningu ef hann getur, (Forseti hringir.) annars láti hann það bíða.