138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

störf þingsins.

[12:35]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs undir þessum dagskrárlið vegna þess að ég tel að hæstv. forseti hefði átt að víta hv. þm. Björn Val Gíslason. (Gripið fram í: Heyr.) Það er óþolandi að hv. þingmaður bregði sér hér í hlutverk rógberans og beri sakir á menn til þess eins að láta þá reyna að afneita þeim. Þetta er þekkt fyrirbæri en hefur aldrei notið mikillar virðingar.

Látum þá neita því, sögðu menn vestur í Bandaríkjunum, og höfðu skömm fyrir. Hv. þingmaður ætti að skammast sín. Hv. þingmaður hefur verið í þeirri stöðu sem varaformaður fjárlaganefndar að kalla eftir alls konar nefndarálitum og sérfræðiálitum sem greitt er fyrir. Engum dettur í hug að ætla að hann hafi haft af því fjárhagslega hagsmuni, en þetta var það sem hann sagði í raun og veru, hann fór niður á slíkt plan. (VigH: Rétt.) Ef hv. þingmaður er maður að meiri ætti hann að koma hér upp og biðjast afsökunar.