138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

orð þingmanns í umræðu um störf þingsins.

[12:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum hér við lok sumarþings, einungis örfáir dagar eftir af þingstörfunum, og ég vissi ekki betur en að formenn allra flokka væru af góðum ásetningi að reyna að binda endi á þingstörfin í góðri sátt. En þá er auðvitað að finna í stjórnarflokkunum þingmenn eins og þann sem hér kemur fram með þessar makalausu ásakanir, rýtingsstungu í bak samherja sinna á þinginu sem eru að reyna að vinna störf sín í góðri trú, ber það upp á Sjálfstæðisflokkinn og hv. þingmann að hafa persónulega eða fyrir hönd flokksins ráðið lögmannsstofu í öðrum löndum. Auðvitað vitum við öll sem hér erum, en kannski ekki allir sem hlýða á það sem hér gerist, að þingið sjálft ræður lögmannsstofur. Það er þingið sjálft sem semur um kaup og kjör, það er ekki Sjálfstæðisflokkurinn og hann hefur ekki áskilið sér rétt til að komast í þá stöðu.

Hins vegar er hv. þingmaður í hópi þeirra sem samþykktu umrædd Icesave-lög sem þjóðin hefur síðan troðið ofan í kokið á hv. þingmanni og öðrum þeim sem stóðu að því að reyna að dæma þjóðina í 220 milljarða kr. reikning vegna þessa máls. (Gripið fram í.) Það horfir vonandi til þess að mun betri niðurstaða fáist, en þjóðin hefur greinilega ekki (Forseti hringir.) komið þessum skilaboðum nægilega vel til skila því að hv. þingmaður kann enn þá ekki að skammast sín.