138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

orð þingmanns í umræðu um störf þingsins.

[12:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við höfum orðið vitni að grímulausum mccarthyisma. Það er það sem hv. þm. Björn Valur Gíslason varð ber að áðan. Hann bar hér alvarlegar sakir á þingmann í því skyni að stilla honum upp við vegg þannig að hann yrði að neita. Þetta var mccarthyisminn í hnotskurn. Ég hélt satt að segja, virðulegi forseti, að við ættum ekki eftir að upplifa það, sérstaklega ekki í ljósi þess áfellisdóms sem slík umræða hefur nú fengið á síðustu vikum og mánuðum.

Það sem um er að ræða varðandi þá skýrslu sem hér var gerð að umtalsefni er einfaldlega það að þingið vildi fá álit sérfræðings á þessu umdeilda máli. Þetta álit kom og var vel rökstutt. Það passaði að vísu ekki við þá niðurstöðu sem ríkisstjórnin hafði gefið sér og þess vegna var ríkisstjórnin óánægð með það, það var nefnilega ekki hægt að panta álitið frá Bretlandi. (VigH: Rétt.) Það er það sem málið snýst um. Ef menn eru ekki sammála ríkisstjórninni er þeim mætt með mccarthyisma 21. aldarinnar.