138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

orð þingmanns í umræðu um störf þingsins.

[12:49]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Já, við mundum vilja hafa umræðuna svolítið öðruvísi en menn verða að fá tækifæri til að bera hönd fyrir höfuð sér þegar á þá eru bornar slíkar ásakanir sem hér hafa verið bornar fram. Það er kannski vegna þess að ég hef gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir launamál tengd Seðlabankanum — í kjölfar þess hef ég þurft að sæta árásum, fyrst út af styrkjamálum og fyrir að vilja ekki upplýsa um þá styrki sem hæstir voru til mín í prófkjöri árið 2006. Það er ekki vegna þess að ég hafi verið styrktur af útrásarvíkingum eða bönkum, eins og sumir, heldur af fjölskyldumeðlimum og fólki sem tengist mér vinaböndum og kærir sig ekki um að taka þátt í eða vera hluti af þessari umræðu. Nú er mér legið á hálsi fyrir það og gefið í skyn að ég hafi þegið fé frá erlendri lögmannsstofu í einhverjum pólitískum tilgangi. Þetta er svo ógeðslegt, ómálefnalegt og svívirðilegt að ég krefst þess (Forseti hringir.) að fá svör við því frá hæstv. forsætisráðherra hvort þau ummæli sem hv. þm. Björn Valur Gíslason lét falla og þær aðdróttanir (Forseti hringir.) sem hann kom fram með í minn garð séu ekki vítaverðar (Forseti hringir.) samkvæmt lögum um fundarsköp Alþingis.