138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

framhaldsskólar.

578. mál
[13:03]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Herra forseti. Það kom fram í umræðunni í gær að einn framhaldsskóli í Reykjavík sem hafði ætlað sér í breytingar hefði síðan ekki getað farið í þær. Það kom líka fram í umræðunni í gær að umræddur framhaldsskóli hefði getað boðið ákveðna prósentuhækkun til kennara sem hefði verið hafnað. Í ræðu minni hér í gær lét ég að því liggja að eitthvað sérstakt lægi þar á bak við og skrýtið væri að einn skóli gæti boðið launahækkun meðan verið væri að fresta gildistöku framhaldsskólans og taldi að hæstv. menntamálaráðherra hefði ekki gefið alveg réttar upplýsingar. Ég upplýsi það hér og nú að í samtali við formann menntamálanefndar, að lokinni umræðu í gær, komu skýringar á því sem ég taldi vera með öðrum hætti og hæstv. menntamálaráðherra hefur ekki að nokkru leyti farið fram með þetta frumvarp á fölskum eða röngum forsendum eins og þingmaðurinn Ragnheiður Ríkharðsdóttir gaf til kynna í gær. Bið ég hæstv. menntamálaráðherra afsökunar á því og segi já. (Gripið fram í: Heyr.)