138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl.

485. mál
[13:13]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli eindregið með því að þetta frumvarp verði samþykkt óbreytt, þar á meðal og ekki síst 1. gr. þess. Það eru mjög gleðileg tímamót. Við stöndum nú frammi fyrir því vonandi innan skamms að ein hjúskaparlög gilda í landinu fyrir alla, óháð kynhneigð. Við erum þá komin mjög langt á veg með að gera réttindi manna að þessu leyti þannig að allir standi jafnir fyrir lögum eins og vera ber, óháð kynhneigð sinni, kynþætti eða öðrum slíkum hlutum. Ég tel að langeðlilegasta orðalagið á þessu ákvæði sé það sem frumvarpið ber með sér, þ.e. að hjúskapur sé félag tveggja einstaklinga úr því að ekki er stemning fyrir því að hafa það rýmra, tveggja eða fleiri, [Hlátur í þingsal.] eða eitthvað í þeim dúr. Það er með öllu ástæðulaust að viðhalda leifum af þessum dapurlega aðskilnaði í löggjöf sem við höfum búið við fram að þessu. En við erum komin langan veg og við sem höfum verið hér um nokkurt árabil munum þessa sögu. Það er nú reyndar ótrúlega stutt síðan að fyrstu almennilegu (Forseti hringir.) skrefin voru yfir höfuð stigin í þessum efnum, en við erum komin mjög langan veg með þessu frumvarpi, (Forseti hringir.) ekki síst ef að lögum verður.