138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl.

485. mál
[13:14]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Varðandi þessa tilteknu breytingu er ljóst að um hjúskap getur verið að ræða milli karls og konu, karls og karls eða konu og konu. Það er mat okkar í minni hlutanum að það felist ekki nein mismunun milli þessara sambúðarforma þó að þetta sé tilgreint með þessum hætti. Skýringin á því að við setjum þetta fram er sú að við teljum að með þessu móti megi koma að einhverju leyti til móts við ákveðna gagnrýni sem fram hefur komið á frumvarpið og byggir á djúpri trúarlegri sannfæringu. Við teljum að það sé rétt að löggjafinn taki tillit til þess að einhverju leyti. Ég tek hins vegar skýrt fram að við í minni hlutanum styðjum það að ein hjúskaparlög gildi um alla og styðjum það að hugtökin „hjúskapur“ og „hjón“ gildi um sambúðarform af þessu tagi hver sem kynhneigð þeirra er sem þar eiga aðild (Forseti hringir.) að.