138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl.

485. mál
[13:20]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Þetta er einmitt umræða sem hefur verið talsvert uppi á borðinu, þ.e. á að skylda alla presta til að vígja saman samkynhneigða eða ekki? Margir segja, já, það á að skylda þá alla. En frumvarpið gerir ekki ráð fyrir því þannig að þetta er má segja hógvær leið. Þeir sem vilja alls ekki gera það geta komist upp með það að víkja sér undan. Það er alveg skýrt í frumvarpinu þannig að ég styð ekki þessa breytingartillögu.

Ég vil líka taka fram að þessi hugmyndafræði er einnig í anda þess sem ríkir í heilbrigðisþjónustunni. Þar geta menn vikið sér undan verkum ef það stríðir gegn trúarlegri og siðfræðilegri hugmyndafræði þeirra þannig að þetta er ekkert nýmæli. Þess vegna segi ég nei við þessari breytingartillögu.