138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

almenn hegningarlög.

649. mál
[13:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir stutta og skýra framsögu. Það var eitt atriði sem ég hjó eftir í ræðu hennar sem ég vildi kannski inna hana nánar eftir, það að hún lýsti því að æskilegt væri að Ísland ætti aðild að öllum helstu samningum og samstarfi á þessu sviði, þ.e. á því sviði sem lýtur að baráttu gegn spillingu. Ég spyr hæstv. dómsmálaráðherra hvort um sé að ræða einhverja samninga af þessu tagi eða eitthvert samstarf sem við eigum eftir að taka þátt í eða eigum eftir að ganga inn í sem gæti þá komið til viðbótar því alþjóðlega samstarfi sem hún gerði grein fyrir í framsöguræðu sinni. Það er ágætt fyrir okkur í þessari umræðu að átta okkur á því hvort það er einhver samstarfsvettvangur sem við stöndum fyrir utan sem hugsanlegt væri að við værum aðilar að þannig að við sjáum aðeins fyrir okkur, sérstaklega áður en við byrjum að vinna með þetta mál í allsherjarnefnd, eiginlega bara hvaða verkefnum er ólokið á þessu sviði.