138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

almenn hegningarlög.

649. mál
[14:14]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær fyrirspurnir sem hv. þingmaður beinir til mín. Þær gefa mér tækifæri til að fara betur yfir það sem ég reyndi að ryðja út úr mér á skömmum tíma um evrópsku handtökuskipunina.

Það sem ég vakti máls á í upphafi og hv. þingmaður kom inn á líka er þetta traust sem þarf að ríkja á milli þessara ríkja til að framsal samkvæmt evrópsku handtökuskipuninni geti gengið fyrir sig. Það er vissulega þannig og íslensk stjórnvöld gerðu fyrirvara þegar viðræður voru við Evrópusambandið um að gerast aðilar að evrópsku handtökuskipuninni. Það var gerður fyrirvari um eigin ríkisborgara og tvöfalt refsinæmi. Það ber að líta til þess að í handtökuskipuninni eru mun færri synjunarástæður en ella. Með synjunarástæðum á ég við það að ríki getur beitt fyrir sig í landslögum ákveðnum ástæðum til að synja um framsal en með evrópskri handtökuskipun er þessum synjunarástæðum fækkað til muna. Einnig er þar ekki gert ráð fyrir því að hægt sé að synja um framsal á eigin ríkisborgurum.

Það voru gerðir aðrir fyrirvarar við þetta en við leggjum upp með í okkar lagavinnu og síðan er það vitaskuld Alþingis að taka afstöðu til þess. Við leggjum upp með það í okkar lagavinnu að gera ekki þessa fyrirvara heldur sameinast þessum ríkjum í framsalskerfinu eins og það er hugsað og byggt upp, þ.e. að hafa sem fæstar synjunarástæður. Vissulega getur þetta vakið upp spurningar um það hvort hér sé of hratt farið. Það þarf að vega vel og meta kostina við að hafa framsal og láta það ganga snurðulaust fyrir sig og gallana við það að við erum þrátt fyrir allt ekki öll með sama kerfi. Það má auðvitað ekki brjóta gegn réttlætisvitundinni við að framselja sakamenn. Það er alveg á hreinu. Þessi umræða um evrópsku handtökuskipunina, að það sé alveg sjálfsagt að við gerumst aðilar að henni á einum degi eða umræða um það af hverju í ósköpunum það er ekki búið að gerast fyrr, á tæpast rétt á sér vegna þess að það hefur tekið okkur tíma að fara í gegnum þessi atriði, að hanna drög að nýjum lögum sem gera ráð fyrir nýju kerfi. Einnig þarf þetta síðan að enda aftur hjá Evrópusambandinu og ríkjum þess þannig að það er ekki hlaupið að þessu á einni nóttu frekar en annarri alþjóðlegri samvinnu.

Ég ítreka þá skoðun mína að ég tel ekki rétt að Íslendingar haldi fast í þessa reglu, ein þjóða í rauninni í þessu samstarfi. Eftir minni bestu vitund falla ríki almennt frá því að beita þeirri synjunarástæðu að um sé að ræða eigin ríkisborgara. Ég tel að við eigum að láta okkur hafa það að framselja okkar eigin ríkisborgara en auðvitað verður að liggja því til grundvallar ákveðin umræða, ákveðin lagavinna, sem nauðsynlegt er að ræða mjög vel.

Hvað varðar tilvísunina eins og þá sem 1. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir er það einmitt rétt hjá hv. þingmanni að það er vísað í háttsemina og hún talin nægilega traust refsiheimild. Ég hef ósjaldan þurft að ræða einmitt þetta ákvæði í alþjóðlegu samhengi þar sem er einmitt spurt: Er þetta ekki allt of víðtækt og almennt orðalag? Það hefur ekki verið talið hingað til. Refsiréttarnefnd hefur farið yfir málið og leggur einmitt til þetta orðalag enn á ný. Viðbótin sem þetta felur í sér er þá viðbót við gildissviðið. Ég man ekki alveg hvort þetta er akkúrat í þeim kafla, háttsemina er í sjálfu sér þegar að finna í hegningarlögunum en síðan felst hin efnislega viðbót í viðbót ákvæðisins.