138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

almenn hegningarlög.

649. mál
[14:21]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Öll þessi sjónarmið sem hér hafa komið fram eiga fyllilega rétt á sér. Þess vegna ítreka ég að það er ekki hlaupið að því að breyta framsalsreglum okkar í einum grænum. Þetta verður að ræða vel og ræða kosti og galla þess að hafa skilvirkt framsalskerfi. Ég er þeirrar eindregnu skoðunar að við verðum að horfast í augu við þann veruleika að við förum ekki varhluta af alþjóðlegri glæpastarfsemi. Til að berjast gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi þarf alþjóðlega lögreglusamvinnu. Ég held að við komumst ekki fram hjá því að herða okkur í þessu og hugsa fram á við. Við getum auðvitað ekki setið uppi með að vera griðland fyrir þá sem glæpastarfsemina stunda. Ég held að við verðum að horfast í augu við það að við erum þátttakendur í hinu alþjóðlega umhverfi, þar á meðal glæpaumhverfinu.