138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

aðild að spillingarsamningi Sameinuðu þjóðanna.

652. mál
[14:27]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. utanríkisráðherra nefndi í ræðu sinni, sem var ágæt og skýr, að annars vegar með fullgildingu þessa samnings og lögfestingu frumvarpsins sem hæstv. dómsmálaráðherra mælti fyrir áðan, og hins vegar með frumvarpi því sem forsætisráðherra hefur flutt um setningu siðareglna fyrir Stjórnarráðið, væri komið til móts við kröfur þessa alþjóðlega samnings. Ég hef kynnt mér frumvarp hæstv. forsætisráðherra um siðareglur. Ég verð að játa það að miðað við hvað um efnisrýrt og yfirborðskennt frumvarp er að ræða, þá hef ég á tilfinningunni að það muni ekki koma mikið til móts við eitt eða neitt, a.m.k. ef það verður þýtt eða kynnt þeim erlendu aðilum sem með þessu eiga að fylgjast.

Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. utanríkisráðherra geti greint mér frá því hvaða atriði í frumvarpi hæstv. forsætisráðherra um siðareglurnar komi með sérstökum hætti til móts við kröfur spillingarsamnings Sameinuðu þjóðanna.