138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

aðild að spillingarsamningi Sameinuðu þjóðanna.

652. mál
[14:31]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ánægjulegt að við hæstv. utanríkisráðherra eigum samleið í þessum efnum, ég hafði reyndar engar sérstakar efasemdir um það. Ég hygg hins vegar að vandinn eða veikleikinn við frumvarpið sem hæstv. forsætisráðherra hefur lagt fram sé að þar er með almennum orðum og fögrum yfirlýsingum vikið að fjöldamörgum atriðum sem í raun og veru eru þegar í lögum. Á þeim má því taka með sértækari hætti en þeim óljósa hætti sem almennt orðaðar siðareglur kveða á um. Við höfum t.d. tiltölulega nýlega, af því að hæstv. utanríkisráðherra nefndi áhrifakaup, sett löggjöf um fjármál stjórnmálaflokka og stjórnmálasamtaka og frambjóðenda. Við getum skoðað þau lög. Þar er um að ræða sértækar reglur sem kveða á um slíkt.

Mútur eru auðvitað ólöglegar samkvæmt íslenskum lögum þannig að staðreyndin er sú að almenn orð í siðareglum koma ekki í staðinn fyrir og bæta í rauninni engu við skýr lagaákvæði sem gilda um svona atriði. Við eigum að vinna á vandamálum sem þessum með skýrri lagasetningu en ekki endalausri froðu, ekki endalausum almennum, innantómum yfirlýsingum, jafnvel þótt þær kunni að hljóma fallega. Ef beita á sér gegn spillingu, ef beita á sér gegn brotum í starfi og þess háttar þá á að gera það með skýrum lagaákvæðum en ekki með fögrum yfirlýsingum sem enga efnislega þýðingu hafa þegar til kastanna kemur.