138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

aðild að spillingarsamningi Sameinuðu þjóðanna.

652. mál
[14:33]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég gæti ekki verið meira á öndverðum meiði við hv. þingmann. Það stafar m.a. af náinni umgengni við hann í tímans rás við lögfræðileg störf. Hv. þingmaður er mér að öllu leyti fremri hvað varðar skilning og þekkingu á lögum. En ég man ekki betur en ég og hann höfum átt fyrir nokkrum árum umræðu í nefnd um það sem ég held að við höfum sameiginlega kallað lagalega auðmýkt.

Hv. þingmaður sýnir átakanlegan skort á því. Hv. þingmaður virðist að engu virða það sem hann kallar innantóm orð og fagrar yfirlýsingar en eru leiðbeiningar í lögum um háttsemi borgaranna. Ég man ekki betur en það hafi verið hv. þingmaður sem á sínum tíma tók þátt í umræðu í þinginu ásamt öðrum þar sem rætt var einmitt um það með hvaða hætti ætti að búa lög úr garði þannig að þau hefðu gildi. Niðurstaða þeirrar umræðu eins og ég skildi hana var ekki þessi lögfræðilegi pósitífismi sem hv. þingmaður heldur fram sem hinum innsta kjarna lagasetningar. Í honum felst að ítreka á allt með nákvæmni í lögunum og það sem ekki er talið upp í lögunum má af orðanna hljóðan draga þá ályktun að sé leyfilegt.

Ég er algerlega andstæður þessari nálgun lögfræðinnar sem hv. þingmaður beitir hér. Ég er þeirrar skoðunar að í lögum af þessu tagi, ég tala ekki um siðareglum, eigi að koma fram almennar leiðbeiningar um háttsemi. Ef menn ganga of langt í að útskýra í lögum af þessum toga hvað má og hvað má ekki, hljótum við að lokum að enda í þeim áfangastað að það sem er ekki talið upp í lögunum sé heimilt. En það eru ekki slík lög sem ég vil að Alþingi setji um mál af þessum toga. Ég ber í brjósti mér að minnsta kosti glóð vonar um að hv. þingmaður verði í lok þessarar umræðu sammála mér um það. (Forseti hringir.) Ég veit að hv. þingmaður er skynugur og réttlátur að upplagi þó að mér þyki svolítið skorta á lagalega auðmýkt af hálfu þessa góða lögfræðings.