138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

aðild að spillingarsamningi Sameinuðu þjóðanna.

652. mál
[14:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er tvennt sem ég vil ræða í máli hv. þingmanns. Ég er alveg sammála honum að ef um er að ræða háttsemi sem er með einhverjum hætti refsiverð þarf að mæla skýrt fyrir um það í lögum. Hv. þingmaður nefndi mútur sem dæmi. Ég er honum alveg sammála um það. Nú er það svo að í almennum hegningarlögum og jafnvel fleiri lögum er að finna ákaflega skýr ákvæði um það.

Hitt sem ég vildi gera að umræðuefni, frú forseti, var sú staðhæfing hv. þingmanns að hann hefði í áranna rás batnað, bæði sem maður og sem lögfræðingur. Nú get ég fúslega tekið undir það, af góðum kynnum við hv. þingmann, að fyrri staðhæfingin er algjörlega rétt. Að því er varðar síðari staðhæfinguna hef ég engar efnislegar forsendur til að geta fallist á hana. Ég verð líka að játa að hin seinni ár hefur hv. þingmaður ekki gefið mér nokkurt tilefni til þess að taka undir hana.