138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

geislavarnir.

543. mál
[14:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta heilbrigðisnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um geislavarnir, með síðari breytingum.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund Álfheiði Ingadóttur, heilbrigðisráðherra, Guðríði Þorsteinsdóttur, sviðstjóra laga- og stjórnsýslusviðs heilbrigðisráðuneytisins, Einar Magnússon, skrifstofustjóra skrifstofu lyfjamála hjá heilbrigðisráðuneytinu og Sigurð M. Magnússon, forstjóra Geislavarna ríkisins.

Nefndinni bárust umsagnir frá Geislavörnum ríkisins, heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands, Krabbameinsfélagi Íslands, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og landlækni.

Með frumvarpinu er lagt til að einstaklingum yngri en 18 ára verði bannað að nota sólarlampa í öðrum tilgangi en læknisfræðilegum á stöðum sem starfsleyfi hafa samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Er ráðherra veitt heimild til að kveða nánar á um framkvæmd þessa í reglugerð. Þá fer eftirlit, þvingunarúrræði og viðurlög samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Í athugasemd um 1. gr. frumvarpsins kemur jafnframt fram að gert sé ráð fyrir að eftirlit verði á hendi heilbrigðisfulltrúa sveitarfélaga. Í almennum athugasemdum við frumvarpið kemur fram að bannið sé sett á grundvelli heilbrigðissjónarmiða og í ljósi þess að útfjólublá geislun frá sólarlömpum sé nú flokkuð sem krabbameinsvaldandi. Fram kemur í umsögnum Krabbameinsfélags Íslands og heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands að tíðni húðkrabbameins hafi vaxið gríðarmikið á undanförnum árum og samkvæmt krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins eru hér á landi um 50 manns greindir með sortuæxli í húð og um 60 með annars konar illkynja húðæxli á hverju ári. Enn fremur kemur fram í gögnum frá Geislavörnum ríkisins að nýgengi sortuæxla meðal kvenna samkvæmt krabbameinsskrá frá árinu 2004 hafi aukist gríðarlega frá árinu 1990.

Þá kemur fram að börn og unglingar eru sérstaklega viðkvæm fyrir útfjólublárri geislun en í gögnum Geislavarna ríkisins, sem byggjast á árlegum könnunum Capacent-Gallups, hefur hátt í helmingur allra einstaklinga 16–19 ára farið í ljós á tólf mánaða tímabili, rúmlega 40% á aldrinum 20–23 ára og rúmlega 20% á aldrinum 12–15 ára hafa farið í ljós á tólf mánaða tímabili. Með fræðslu og leiðbeiningum á undanförnum árum hefur þó tekist að fækka verulega í hópnum 20–23 ára, minni fækkun er í hópnum 16–19 ára en ekki er fækkun í hópnum 12–15 ára. Í könnun Capacent-Gallups kemur fram að um 7% 20–23 ára, um 12% 16–19 ára og um 4% 12–15 ára fara í ljósabekk mánaðarlega eða oftar.

Af þessu má sjá að sú fræðsla og sá áróður sem farið hefur verið í á undanförnum missirum nær ekki nógu vel til barna og unglinga sem mest hætta stafar af útfjólublárri geislun. Heilbrigðisnefnd telur mikilvægt að brugðist sé við í forvarnaskyni í þessu máli. Tvö sjónarmið vega hér þungt, annars vegar að hér er um börn og unglinga að ræða og hins vegar sú staðreynd að nú er útfjólublá geislun frá sólarlömpum flokkuð sem krabbameinsvaldandi, samanber tilkynningu Alþjóðlegu rannsóknarstofnunarinnar í krabbameinsfræðum í Lyon, sem starfar á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, frá 29. júlí 2009.

Í ljósi framangreinds telur meiri hlutinn nauðsynlegt að takmarka aðgang ungmenna að sólarlömpum í öðru skyni en læknisfræðilegu og leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Hv. þingmenn Guðlaugur Þór Þórðarson, Valgerður Bjarnadóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir voru fjarverandi við afgreiðsluna.

Undir nefndarálit þetta rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Sigmundur Ernir Rúnarsson, Skúli Helgason, Margrét Pétursdóttir og Siv Friðleifsdóttir.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu frekar. Nefndarálitið talar sínu máli sem og tilmæli Geislavarna ríkisins eftir leiðbeiningum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Það er ekki lengur neinn vafi á skaðsemi útfjólublárra geisla frá sólarlömpum. Þeir eru krabbameinsvaldandi. Ég tel að í þessu eigum við að fara eftir þeim lýðheilsumarkmiðum að bæta heilsu og draga úr sjúkdómavöldum, samanber að við höfum sett lög um bílbelti, hjólahjálma, bannað sölu tóbaks til barna undir 18 ára aldri o.s.frv. Við gerum þetta því við erum strangari hvað varðar boð og bönn þegar kemur að börnum því að börn eru á mörgum sviðum viðkvæmari fyrir umhverfisþáttum en fullorðnir.