138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[15:30]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég svo sem vissi að hugmyndir okkar um hvernig best væri að standa að skattkerfi mundu seint fara saman. Ég er þó á því að best sé hjá þjóðum að hafa skattkerfið sem einfaldast og gagnsæjast, en þannig er það ekki í þessu frumvarpi. Ég segi þetta með þeim fyrirvara að ég hef ekki náð að lesa mig í gegnum frumvarpið með þeim hætti að ég hafi náð utan um allar hugmyndirnar en hins vegar er mikill misskilningur hjá hæstv. ráðherra ef hann heldur því fram að einhverjir sem stofnuðu til skulda hér á árum áður, (Gripið fram í.) skulda sem hafa aukist alveg gríðarlega og jafnvel tvöfaldast vegna þess að hér varð hrun, efnist á því ef þeir ná samkomulagi við lánastofnun um að lækka þær skuldir. Ég skil ekki þá röksemdafærslu.

Ég hygg að við hæstv. ráðherra séum báðir norðanmenn, báðir gengum við í Menntaskólann á Akureyri, en það er alveg greinilegt að sú stærðfræði sem hæstv. ráðherra notar er allt önnur en kennd var þegar ég gekk í þann góða skóla, Menntaskólann á Akureyri.