138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[16:00]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja að það sem hæstv. fjármálaráðherra taldi upp eru í rauninni allar meginástæðurnar fyrir því að fólk getur ekki borgað skuldir sínar. Ef þetta nær yfir alla og eina ástæðan fyrir þessum flóknu reglum sem birtast í frumvarpinu er að halda því meginprinsippi að öll lífsins gæði myndi skattstofn, þá er ég svolítið hugsi. Er ekki hægt að gera það á einfaldari hátt en hér er gert? Þetta eru flóknar reglur með alls konar undanþágum og vafaatriðum. Jafnvel gætu komið upp alls konar túlkunaratriði varðandi það sem hæstv. fjármálaráðherra taldi upp áðan. Mér er því skapi næst að segja að ég skilji ekki alveg tilganginn með lögunum. Ég skil alveg tilganginn með því að skýra þessa skattaframkvæmd, það er algjörlega ljóst fyrir mér, en ekki það að vera með öll þessi mörk og skilyrði og annað slíkt, ef mörkin og skilyrðin eru það yfirgripsmikil að þau dekki alla nema kannski einn, tvo eða þrjá.