138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[16:02]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þetta frumvarp sé komið fram, þó svo að mér finnist augljóst að af umræðum að dæma þurfi að fara betur yfir það. Ég, eins og aðrir þingmenn, var bara að fá frumvarpið í hendurnar en hef reynt að lesa mig í gegnum það og sömuleiðis að hlusta á þá umræðu sem hér hefur farið fram. Eins og ég skil málið er um það að ræða að hámarksskattfríðindi eru 20 milljónir hjá hjónum og 10 milljónir hjá einstaklingi. Hæstv. fjármálaráðherra er heimilt að nikka höfðinu ef þetta er rétt túlkun. Mér sýnist á hæstv. fjármálaráðherra að það sé einhvern veginn þannig.

Á bls. 4 er síðan uppsetning á dæmi um eftirgjöf á sköttum varðandi fyrirtækin og virðist þar um að ræða nokkuð flóknar reglur. Í það minnsta er ljóst að ef það er afskrift af skuldum hjá fyrirtækjum er hún alla jafna skattskyld, ef marka má þær upplýsingar sem við í hv. viðskiptanefnd höfum t.d. fengið um stöðu fyrirtækjanna. Í örstuttu máli virðist vandinn sem við horfumst í augu við vera sá og við ættum í raun að vera búin að takast á við hann fyrir löngu — ég ætla nú ekki að fara yfir af hverju það hefur ekki gerst en okkur í þinginu er ekki mikill sómi að því — að við erum enn þá að eiga við fólk sem er mjög skuldsett núna, án þess að hafa lent í neinum glannaskap, og stendur frammi fyrir því að vera oftar en ekki með lægri tekjur og hærri skatta, jafnvel engar tekjur, svo að það sér ekki hvernig það á að vinna sig út úr hlutunum. Mikið hefur verið kallað eftir því að raunhæfar aðgerðir fari í gang og við þekkjum þá sögu.

Ég ætla að nefna eitt raunverulegt dæmi um ungt fólk sem keypti sína fyrstu íbúð í lok árs 2007. Nú hefur komið fram í fjölmiðlum að 40% af þeim sem keyptu sér íbúð eftir 2006 eiga í miklum erfiðleikum og ná ekki endum saman. Þetta unga par sem er með eitt barn keypti sér sína fyrstu íbúð í lok árs 2007. Þetta er ekki stór íbúð en er á höfuðborgarsvæðinu og parið borgaði 30 millj. kr. fyrir hana. Segja má að það hafi verið ákveðinn glæfraskapur ef við erum afskaplega ströng en þess ber þó að geta að þetta var tíðarandinn. Kaupverðið var allt tekið að láni, þ.e. það var tekið lán upp á 30 milljónir. Síðast þegar ég vissi stóð lánið í 74 milljónum en markaðsvirði íbúðarinnar er hins vegar 20 milljónir. Ég ímynda mér að þetta sé dæmi eins og þau líta mörg út núna. Lán sem var 30 milljónir er komið í 74 milljónir. Íbúðin sem var á 30 milljónir er komin í 20 milljónir. Í mínum huga er þetta mjög einfalt. Þetta snýst um það hvað við ætlum að gera í aðstæðum fólks eins og þessa pars. Þetta er ekkert flóknara. Það er augljóst að þetta reikningsdæmi gengur ekki upp.

Það eru auðvitað nokkrir valkostir. Einn kosturinn er sá að gera ekki neitt. Við vitum að þá mun þetta fólk verða keyrt í þrot. Þá þurfum við líka að svara þeirri spurningu hvernig við tökum á því, af því að það mun örugglega hafa þær afleiðingar að lánastofnanir munu sitja uppi með margar þessar íbúðir og sömuleiðis er þetta fólk kannski ekki til stórræðanna næstu árin á eftir. Ég held að það væri ekki skynsamlegt að fara þá leið. Ég held að við verðum að finna allar leiðir til að fólk í þessari stöðu lendi ekki þar en muni þess í stað geta unnið sig út úr þessu. Röksemdin fyrir því að komið sé til móts við þetta fólk er einfaldlega sú að hér er um kerfishrun að ræða. Það hreinlega borgar sig fyrir okkur að mæta vanda þessa fólks.

Þessi hjón eða sambúðarfólk — 20 milljóna afskrift gerði það að verkum að lánið færi þá í 54 milljónir og væri enn þá mjög snúið verkefni miðað við íbúð sem er 20 milljónir að markaðsvirði. Ef afskriftin yrði meiri og hún yrði skattlögð, þar sem fólkið hefur minni ráðstöfunartekjur en það hafði áður og í ofanálag hærri skatta, held ég fljótt á litið, virðulegi forseti — ég hef ekki haft tíma frekar en aðrir til þess að fara almennilega yfir það en fljótt á litið finnst mér að þetta reikningsdæmi gangi engan veginn upp. Þetta er ekki lausn fyrir fólkið því við erum búin að skattleggja það með því að skattleggja umfram þessar 20 milljónir og því getur það ekki farið neina afskriftaleið. Þá er það væntanlega gjaldþrotaleiðin sem blasir við þessu fólki. Hafandi í huga að 40% af þeim sem keyptu sína fyrstu íbúð eftir 2006 ná ekki endum saman get ég ímyndað mér að hér sé ekki um einstakt dæmi að ræða.

Þetta er það sem ég hef áhyggjur af núna. Ég skil það svo á hæstv. fjármálaráðherra að þetta sé frítekjumark upp á 20 milljónir hjá hjónum. Það er alveg ljóst að sérstaklega hjá þeim sem keyptu sína fyrstu íbúð í kringum áramótin 2007 mun það duga lítt. Þá þarf löggjafinn alla vega að ákveða hvort þessu fólki verður ekki bjargað og takast sérstaklega á við það. Ég held þess vegna, virðulegi forseti, að við þurfum að hugsa þennan þátt upp á nýtt. Það væri gaman að heyra sjónarmið hæstv. fjármálaráðherra um það.

Það er gott að fá svona dæmi beint upp í hendurnar því þetta er raunverulegt dæmi um ung hjón. Ef menn kalla það glæfraskap að kaupa sína fyrstu íbúð á 30 milljónir í lok árs 2007, íbúð sem er núna metin á 20 milljónir, þá er erfitt að vera mjög varkár. Auðvitað má segja að fólkið hefði kannski átt að búa annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu en þar sem vinnustaðir þeirra voru hérna held ég að erfitt sé að fara fram á það. Jafnvel þótt þau hefðu farið í íbúð sem kostaði 25 milljónir hefði það ekki breytt neinu í grundvallarforsendum þessa dæmis.

Varðandi fyrirtækin, virðulegi forseti, hef ég skilið málið þannig að við, eins og ýmsar aðrar þjóðir sem hafa farið í gegnum bankakreppur — menn hafa sérstaklega skoðað Asíu, Japan og Suður-Kóreu í því samhengi þótt það eigi svo sannarlega líka við um lönd sem eru mun nær okkur eins og Norðurlöndin — séum með mörg fyrirtæki sem eru með háar skuldir. Stærsti hluti skulda íslenskra fyrirtækja var í erlendri mynt og því miður fóru menn þá leið að skuldsetja allt of mikið. Jafnvel þótt ekki hefði komið bankahrun er alveg ljóst að skuldsetning íslenskra fyrirtækja væri mikið vandamál. Það er kapítuli út af fyrir sig af hverju sá kúltúr fór af stað að skuldsetja fyrirtæki eins og raun ber vitni. Í grófum dráttum er þetta svona, virðulegi forseti, að fyrirtækin skila góðri framlegð, þau eru góð rekstrarfyrirtæki en þau ráða ekki við skuldirnar.

Við þekkjum að bankarnir eru að fara í svokallaða fjárhagslega endurskipulagningu. Stundum, og oftar en ekki, eru eigendurnir hreinsaðir út og fá kannski tækifæri til þess að kaupa sig inn aftur eða að fyrirtæki eru sett á markað. Þó er alveg ljóst að það þarf að afskrifa tugi ef ekki hundruð milljarða króna. Yfirfærslan á uppgjöri gömlu og nýju bankanna sýnir að lánardrottnarnir, þeir sem lánuðu bönkunum sem fóru í þrot og eru núna að reyna að endurheimta eigur sínar, gera ráð fyrir því að um miklar afskriftir verði að ræða.

Hér á bls. 4. er dæmi um eftirgjöf skuldar upp á 100 millj. kr. Síðan er gert ráð fyrir að rekstrartap ársins yfirfært frá fyrri árum sé 40 milljónir. Nú veit ég ekki alveg af hverju menn gera endilega ráð fyrir því — það er ekkert sjálfgefið að það sé rekstrartap, ef ég hef skilið þetta rétt eru menn frekar að reyna að bjarga fyrirtækjum sem eru í góðum rekstri þrátt fyrir miklar skuldir — en eftirgjöfin að frádregnu rekstrartapi eru 60 milljónir. Frá dragast 50% af 50 milljónum, 25 milljónir. Þá stendur hér, með leyfi forseta:

„Frá dregst 25% af eftirgjöf umfram 50 millj. kr., þ.e. að frádregnu rekstrartapi, eða af 10 millj. kr., 2,5 millj. kr.“

Þar af leiðandi teljast til skattskyldra tekna 32,5 millj. kr. Hér er um að ræða afskrift upp á 100 milljónir og það er dregið frá rekstrartap upp á 40 milljónir. Eftir stendur að skattskyldu tekjurnar eru 32,5 millj. kr. Nú verð ég að viðurkenna að ég er svolítið forvitinn að vita að ef það er ekki rekstrartap, ef eftirgjöfin er bara 100 millj. kr. hjá fyrirtækinu, hvað eru þá skattskyldu tekjurnar miklar? Það kemur ekki fram hér. Þetta er væntanlega miðað við 60 milljónirnar sem eru fundnar út með því að taka afskriftina mínus rekstrartap frá fyrri árum. Ég er bara ekki kominn nógu langt, virðulegi forseti, til að átta mig á því af hverju þær forsendur eru til staðar eða hvernig við ætlum að nálgast það þegar viðkomandi fyrirtæki er í góðum rekstri og jafnvel að skila hagnaði fyrir fjármagnsliði, sem mörg dæmi eru um, en skuldirnar eru gríðarlega miklar. Ef það þýðir að skattskyldu tekjurnar eru nokkurn veginn helmingurinn af afskriftunum, eins og ég get ímyndað mér með því að líta á þessar tölur, gæti þetta orðið nokkuð snúið. Fljótt á litið yrði kannski um hálfgerðan bjarnargreiða að ræða að afskrifa hjá viðkomandi fyrirtæki.

Nú er það, virðulegi forseti, lykilatriði að það verði afskrifað hjá fyrirtækjum. Menn geta haft allar skoðanir á því hvort núverandi eigendur eigi að fá að koma nálægt þessu eða hvort við eigum bara að henda þeim öllum út, sérstaklega ef þeir hafa verið í einhverjum glæfraskap, tekið innan úr fyrirtækjum eða slíkt, en það er bara önnur umræða. Ef við ætlum að byggja upp heilbrigt efnahagslíf komumst við ekki hjá því að afskrifa hjá fyrirtækjum. Vandinn er sá hvað við gerum t.d. við fyrirtæki þar sem eigendurnir fóru ekki glæfralega. Við megum ekki ganga þannig fram að afskriftir hjá samkeppnisfyrirtækjunum verði þannig að þessi fyrirtæki muni ekki standast samkeppni við fyrirtæki sem fara í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu. Það er síðan annað mál.

Virðulegi forseti. Ég hefði áhuga á því að fá betur fram sjónarmið hæstv. ráðherra um það hvort hann telji að hér sé nóg að gert, miðað við dæmið sem ég vísaði í varðandi einstaklingana. Sömuleiðis væri gott að fá svar hæstv. ráðherra við því hvað væru miklar skattskyldar tekjur hjá fyrirtækjunum ef ekkert rekstrartap væri dregið frá, eins og í dæminu á bls. 4.