138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[16:17]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi dæmið sem hv. þingmaður nefndi af ungu fólki sem tekið hefði 30 millj. kr. lán sem komið væri í 70 millj. kr. og íbúðarverðið aðeins 20 millj. kr., þá er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að dæmið lítur skelfilega út ef þau eru mörg svo sótsvört. Það eru yfirgnæfandi líkur á því að þetta fólk nýti sér þau skuldaúrræði sem eru sjálfkrafa undanþegin skatti, ég held að það blasi alveg við. Það er skýrt tekið fram í frumvarpinu að leiðréttingar á skuldum sem gerðar eru í tengslum við sértæka skuldaaðlögun og sjálfvirka greiðslujöfnun, samanber lögin nr. 107/2009, og sama gildir um leiðréttingu samkvæmt tímabundinni greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 50/2009, eru sjálfkrafa undanþegnar skattskyldu.

Nú kann að vera að menn fái úrlausn sinna mála með skuldaniðurfellingu, án þess að fara í þessi úrræði, með frjálsum samningum við lánardrottin sinn. Þá er það svo að það sem telst vera skilmálabreyting sem hluti af þeim aðgerðum er sjálfkrafa undanþegið skattskyldu. Það sem er umfram það í lækkun höfuðstóls getur komið til skoðunar og þá yrðu 20 millj. kr. af því sjálfkrafa undanþegnar. Þá hygg ég að hv. þingmaður sjái að dæmið er strax farið að líta talsvert öðruvísi út. Aðeins helmingur telst til skatts sem er þar umfram upp að 40 millj. kr. o.s.frv. Sé dæmið hins vegar þannig hjá ungu hjónunum að þrátt fyrir þá hugsanlega takmörkuðu skattskyldu sem út úr dæminu kemur, bjóði aðstæður þeirra ekki upp á það, eftir að hafa nýtt sér frestinn í tvö ár til að greiða ekki skattinn vegna þess að engin eignamyndun hefur orðið eða vegna þess að aflahæfi þeirra sé skert eða af öðrum slíkum ástæðum, þá geta þau sótt um niðurfellingu. Það er reynt að sjá við þessum atvikum öllum eins vel og mögulegt er. Ég tel að málið nái mjög vel utan um það.

Varðandi fyrirtækin er það einfaldlega þannig að ríkið tekur þátt í þessari skuldaniðurfærslu hjá fyrirtækjunum á ríkulegan hátt og að fjórðungi án tillits til upphæðarinnar.