138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[16:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrirtækin hefur mér virst að gríðarlega stórar fjárhæðir hafi orðið til vegna þess að eigendur hafi hreinsað út úr eignarhaldsfélögunum og skuldsett þau upp í topp. Oftar en ekki hafa þessi eignarhaldsfélög ekki verið í neinum öðrum rekstri en einhverjum fjárfestingum. Mér sýnist að í mjög mörgum fyrirtækjum, a.m.k. miðað við þau dæmi sem við höfum fengið frá bönkunum þegar viðskiptanefnd hefur farið yfir það, stafi þetta af skuldsettum yfirtökum sem menn hafa skellt á fyrirtækin, þ.e. látið fyrirtækin borga kaup sín á þeim sjálfum. Ég veit ekki hvort slíkt komi til frádráttar. Gott dæmi er Húsasmiðjan sem hefur verið keypt aftur og aftur, það fyrirtæki hefur náttúrlega gert einhverjar fjárfestingar en að stærstum hluta er þetta vegna þess að menn hafa verið að borga fyrir kaupin á fyrirtækinu.

Ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt, þá mundu skattskyldar tekjur vera rúmar 50 millj. kr. af 100 millj. kr. afskriftum, ef ekki er um neitt rekstrartap að ræða. Ég held að við þurfum að fara mjög vel yfir þetta og í heildarsamhengi. Ég hef áhyggjur af hvoru tveggja. Ég hef áhyggjur af fyrirtækjunum því að ég veit að þar þarf að afskrifa mikið og það er eina leiðin. Það er betra að gera það og gera það sem fyrst, og taka líka á eigendavandamálinu og sömuleiðis samkeppnismálunum. Síðan eru það einstaklingarnir. Við verðum að horfast í augu við að þau úrræði sem hafa komið fram hafa ekki gengið upp. Þó að menn hafi lagt upp með það þá hefur þetta ekki gengið upp. Um leið og við ákveðum þetta verðum við að ganga þannig fram að við losum fólk úr skuldafjötrum og við megum þá ekki hneppa það í skattafjötra í staðinn.