138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[16:57]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki alveg hvort ég eigi að grípa til máltækisins „seint koma sumir en koma þó“ eða „betra er seint en aldrei“. Það er auðvitað rétt sem sagt hefur verið í allmörgum ræðum í dag að gallinn við þetta skattafrumvarp er m.a. að það er ansi seint fram komið. 1. apríl áttu mál að vera komin til þingsins svo koma mætti þeim á dagskrá án þess að það kallaði á afbrigði. Það er auðvitað engin tilviljun að þetta er gert. Við höfum margra ára eða áratuga reynslu af því og allt of mörg tilfelli þar sem stjórnvöld, bæði þau sem nú sitja og einnig sem fyrr hafa verið við völd, hafa jafnvel komið fram með stórmál á síðustu stundu sem hefur gert það að verkum að þingið hefur fjallað um þau á hálfgerðum handahlaupum. Því miður eru mörg dæmi um að við höfum gert mistök í lagasetningu sem við höfum síðan orðið að leiðrétta þegar mistökin komu í ljós.

Auðvitað er það ekki ætlun neins að gera mistök. Ég er t.d. alveg viss um að í fjármálaráðuneytinu hafa menn reynt að búa til frumvarp sem a.m.k. stæðist út frá einhverjum gefnum forsendum en það er bara þannig að skattamál eru býsna flókin og virkni skattbreytinga verður jafnvel stundum önnur en við ætluðum í upphafi. Við hæstv. fjármálaráðherra, sem höfum dálitla þingreynslu samanlagt og sitt í hvoru lagi, þekkjum býsna mörg dæmi um það. Við höfum báðir setið árum saman í efnahags- og viðskiptanefnd, eins og það hét áður fyrr, og þekkjum dæmi um mál sem hafa komið fram með tilteknum útreikningsdæmum sem líta ekkert illa út. Þegar farið er að skoða fleiri breytur í því sambandi kemur hins vegar oft og tíðum fram niðurstaða sem engan óraði fyrir. Þess vegna höfum við haft það fyrirkomulag í þinginu að frumvörp fara í gegnum þrjár umræður. Þau fara a.m.k. einu sinni til nefndar og stundum oftar þegar um er að ræða álitamál eða flókin mál og það á ekki síst við um skattamálin.

Við ræddum það stundum fyrir fáeinum árum að það væri æskilegt að skattbreytingar ættu sér dálítinn aðdraganda. Menn gætu lagt fram frumvörp í skattamálum á einhverjum tímapunkti sem tækju síðan gildi allnokkru síðar, einmitt til að menn gætu fínpússað þau og slípað til ef í ljós kæmi að þess þyrfti þegar menn skoðuðu framkvæmdina betur. Það er hin æskilega staða en því er hins vegar ekki að heilsa við þær aðstæður sem við búum við í dag. Ég skil mætavel að við getum kannski ekki búið við svoleiðis lúxus, ef ég má orða það þannig, nema við aðstæður sem eru þægilegri og betri í efnahagsmálum en núna. Ég er í sjálfu sér ekki að áfellast hæstv. fjármálaráðherra fyrir að hann sé að gera sér að leik að koma seint fram með málin en þetta er engu að síður hin kalda og bitra staðreynd. Núna 2–3 dögum áður en við ætlum að ljúka þingi að þessu sinni, alla vega fram í september, erum við að fjalla um mál sem mjög margt annað hangir á.

Við höfum með öðrum orðum býsna vonda reynslu af því að gera breytingar í skattamálum á harðahlaupum og þess vegna verður að harma að þetta mál hafi ekki komið fram fyrr. Við hefðum þurft að geta gefið sem flestum kost á því að tjá sig um málið sem hafa sérfræðilega þekkingu. Það er rétt sem hv. þm. Óli Björn Kárason sagði, skattamálin eru í eðli sínu flókin. Þær miklu breytingar sem við höfum gert á þeim, ekki síst á síðasta ári, og við getum haft margs konar skoðanir á, hafa gert að verkum að það er enn þá brýnna fyrir okkur — þegar við erum að fjalla um mál sem snerta svona mikla hagsmuni eins og þetta frumvarp sannarlega gerir — að hafa tóm til að fara yfir þau. Því er þó ekki að heilsa. Þetta er staðan og við stöndum frammi fyrir því að svona er þetta. Frumvarpið er til meðhöndlunar og það verður ekki undan því vikist að takast á við það.

Spurningin er þá bara þessi: Af hverju er verið að flytja þetta frumvarp? Hver er ástæðan fyrir því að það er gert? Ég hefði kosið að í almennum athugasemdum við þetta lagafrumvarp hefðu tvenn meginsjónarmið verið reifuð betur en þar getur að líta. Í athugasemdadálknum er frekar um að ræða tæknilegar útskýringar á málinu en minna er um vangaveltur um af hverju þetta frumvarp var í raun og veru flutt. Aðalástæðan er forsendubrestur, eins og við höfum kallað það. Það sem gerðist við hrunið, og raunar í aðdraganda hrunsins, var að lán fólks hækkuðu gríðarlega mikið. Mjög margir einstaklingar og fyrirtæki höfðu tekið erlend lán og fyrir því voru kannski rökréttar ástæður á sínum tíma. Menn horfðu á lánskjörin og sáu að hægt var að taka t.d. erlend lán með sáralitlum sem engum vöxtum, japönsk jen og svissneska franka. Menn báru þetta saman við íslensku lánin og þá var samanburðurinn býsna einfaldur. Menn gáfu sér síðan að forsendurnar gætu breyst að einhverju marki, jafnvel um 20–30%, og komust að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að menn væru með íslenskar tekjur kynni að vera skynsamlegt að taka erlent lán.

Nú getum við sagt sem svo að hver og einn hefði átt að geta skilið að í þessu fólst mikil áhætta. Gamla þumalputtareglan sem ég lærði á sínum tíma var sú að menn tækju lán í þeirri mynt sem þeir hefðu sínar tekjur í til að draga úr áhættunni. Reynsla síðustu ára, m.a. af mjög sterku gengi og háum íslenskum vöxtum, gerði hins vegar að verkum að fólk kaus að líta fram hjá þessum gömlu ráðum og taldi einfaldlega að þau ættu ekki við í nútímanum. Nú höfum við séð að þetta var ekki alveg rétt. Það hefði verið skynsamlegra að menn hefðu reynt að hafa lánaskuldbindingar sínar meira í íslenskri mynt en erlendri, þrátt fyrir að vextirnir væru svona háir, að því gefnu a.m.k. að tekjurnar væru íslenskar. Þetta á auðvitað ekki við um öll fyrirtæki og gæti líka verið öðruvísi hjá þeim sem hafa tekjur sínar með óbeinum hætti í erlendri mynt, t.d. sjómönnum en tekjur þeirra ráðast á vissan hátt mjög mikið af gengisbreytingum. Þetta er býsna flókið að því leyti.

Kjarni málsins er að það hefur orðið forsendubrestur og fólk og fyrirtæki sem í góðri trú tókust á hendur fjárskuldbindingar eru núna í þeirri stöðu að ráða ekki við þær. Þá standa menn frammi fyrir tveimur valkostum. Í fyrsta lagi, eins og menn hafa gert í stórum stíl, að fara í stórkostlegar skuldbreytingar, nýta úrræði sem lánafyrirtækin hafa boðið upp á og reyna að skapa sér eitthvert skjól. Þetta eru út af fyrir sig skammtímaúrræði því núna standa menn frammi fyrir því að þeim tíma er að ljúka. Það er fokið í þau skjól sem menn höfðu af skuldbreytingunum. Búið er að lýsa því yfir að frá og með næsta hausti verði ekki um frekari skuldbreytingar að ræða, menn fái ekki frekari grið og þess vegna þurfi menn að ganga til lánardrottna sinna og reyna að semja um hvernig þeir geti komist út úr vanda sínum.

Sannarlega verður ekki öllum bjargað. Það á bæði við um fyrirtæki og einstaklinga. Samt sem áður mæla öll sanngirnisrök með því að lánafyrirtæki taki tillit til þessara breytinga sem hafa orðið á forsendum fólks, reyni að koma til móts við það og tryggja að fólk geti haldið eignum sínum. Það mun þá hafa í för með sér að óhjákvæmilegt er að um niðurfellingu á lánum verði að ræða, höfuðstóll lánanna verði færður niður og lánin í heild verði lækkuð. Það er einfaldlega þannig.

Ég er ekki einn af þeim sem halda því fram að núverandi ríkisstjórn hafi ekkert gert til að koma til móts við vanda heimilanna eða fyrirtækjanna. Það væri ósanngjarnt að segja að ekkert hafi verið gert. Auðvitað hefur ýmislegt verið gert, sumt reyndar af hálfu ríkisvaldsins en einnig af hálfu lánafyrirtækjanna sjálfra sem hafa reynt að búa til einhver úrræði, þó að þau úrræði hafi í fæstum tilvikum verið varanleg. Núna er hins vegar komið að ögurstundinni og menn eiga tvo kosti: að reyna að ganga til samninga við lánardrottna sína og leita til þeirra um úrræði eða að gefast hreinlega upp. Ég trúi ekki öðru en það sé vilji okkar allra að reyna að leita lausna á fyrrnefnda háttinn, þ.e. að lánardrottnar gangi til samninga við þá aðila sem í hlut eiga og hluti af því verður þá niðurfelling. Þá kemur hins vegar upp sá vandi sem þessu frumvarpi er ætlað að taka á, þ.e. skattkerfið okkar virkar einfaldlega þannig að það myndast tekjufærsla í bókunum og niðurfellingin getur orðið til þess að fólk getur að óbreyttu jafnvel verið verr statt en áður. Við þann vanda erum við að glíma núna.

Þetta er hins vegar ekki alveg svona einfalt vegna þess að við getum verið að tala um niðurfelllingu sem hefur það að markmiði að færa annars vegar skuldina niður að þolanlegu marki, í þeim skilningi að menn hafi ráð á því að standa undir greiðslubyrðinni, og í öðru lagi að færa skuldirnar niður þannig að þær nálgist nokkurn veginn þær eignir sem menn hafa til að mæta skuldunum. Ég hygg að þetta sé kannski það atriði sem menn vilji horfa á og við viljum reyna að gera á einhvern hátt, að færa skuldirnar nær því sem almenningur og fyrirtækin eiga möguleika á að ráða við. Ég er ekki að tala um neina örlætisgerninga eins og stundum er talað um, þ.e. þegar menn fá þannig niðurskriftir að það valdi beinlínis tekjumyndun í raunveruleikanum og eignamyndun þannig að menn séu jafnvel betur settir en þegar þeir tóku lánin í upphafi. Það er örlætisgerningur og alls ekki það sem við, sem tölum fyrir því að lánardrottnarnir og skuldunautarnir reyni að semja um sín mál, erum að tala um. Örlætisgerningar eru allt annað mál, þ.e. þegar menn fá fyrirgreiðslu sem kemur mönnum í betri stöðu en þeir voru í fyrir, og auðvitað ekki það sem þessum frumvörpum er ætlað að taka á.

Kjarni málsins er sá sem komið hefur fram í þessari umræðu. Við verðum að ganga þannig frá þessu máli að það verði ekki þess valdandi að fólk verði í raun og veru verr statt en áður. Það sem væntanlega er verið að gera þessar vikur og mánuði í bönkum og lánastofnunum í stórum stíl er einmitt að ganga til samninga við slíka aðila. Til eru fyrirtæki sem þegar hafa boðið upp á alls konar úrræði sem fela í sér niðurfellingu skulda en forsendan fyrir því að það sé hægt, það virki og beri einhvern árangur, er að skattarnir séu ekki þannig að þeir hirði allan ávinning af fólki og sá eini sem græði á pappírnum sé ríkissjóður. Gleymum því ekki að ríkissjóður mun ekki græða á þessu í raunveruleikanum. Ríkissjóður mun ekki græða á því að fólk sé sent út á guð og gaddinn og verði að leita sér félagslegra úrræða hjá ríkissjóði, bæði vegna þess að það dregur úr athafnavilja fólks og viljanum til að bjarga sér, auk þess hefur ríkissjóður af því beinan fjárhagslegan skaða. Það má vel vera að hægt sé að tekjufæra það í bókum ríkissjóðs ef menn skattleggja slíkar niðurfellingar en sannið til, slíkar tekjufærslur verða í raun aldrei neinar tekjur fyrir ríkissjóð. Það er bara blekking. Menn verða einfaldlega að átta sig á því. Mér sýnist að í þessum athugasemdakafla sé vikið að því, þó ekki með mjög ákveðnum orðum, að ríkissjóður átti sig á því og það kemur raunar fram í síðari hluta athugasemda sem fylgja frumvarpinu.

Við vitum núna að eins og málin hafa þróast og komið hefur fram t.d. í tölum Seðlabanka Íslands og ýmissa annarra aðila sem hafa skoðað þessi mál — Creditinfo kynnti niðurstöður sínar í gær — þrátt fyrir að ýmislegt hafi verið gert, og ég ætla ekki að draga fjöður yfir það, þá er vandi heimilanna gríðarlega mikill og undan þessu verður ekki vikist. Það sem bíður núna þingnefndarinnar sem fær málið til meðhöndlunar er að fara betur yfir málin og átta sig á því hver hin raunverulegu skattalegu áhrif verða, annars vegar fyrir ríkissjóð og hins vegar, sem mestu máli skiptir, fyrir þá sem eru í þeim sporum að þurfa að færa niður skuldir sínar til að geta staðið undir þeim. Verkefnið á þeim skamma tíma sem er fram undan er þá að ganga þannig frá þessum málum að það sé alveg ljóst að hin meintu úrræði sem ætlað er að felist í frumvarpinu gagnist þeim sem þurfa mest á því að halda.