138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[17:14]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Undir fyrri hluta andsvars hv. þingmanns varð mér hugsað til þess að ég hef flutt nokkrar ræður um sparisjóðina úr þessum ræðustól og sjálfsagt er að myndast einhvers konar sparisjóðsmerki í andlitinu á mér sem verður þess valdandi að hv. þingmaður fer auðvitað að spyrja mig um stofnbréfin, sparisjóðina og það allt saman. (Gripið fram í.) Það væri hægt að halda býsna langa ræðu um þessi mál en ég tel fyrst og fremst að við höfum gert afdrifarík mistök við lagasetningu í fyrra þegar gerðar voru breytingar á lögum sem sneru að sparisjóðunum. Þær framkölluðu í raun og veru þau miklu vandræði sem við erum núna að glíma við. Ég hvatti þá mjög til þess að við reyndum að búa til kerfi sem væri þannig að stofnféð væri a.m.k. metið á genginu 1 þannig að við værum alla vega í þeirri stöðu að menn sem hefðu keypt á því gengi væru ekki í þeim hræðilegum hremmingum sem núna ríða yfir, m.a. landsbyggðina. Það varð því miður ekki niðurstaðan og þá stöndum við bara frammi fyrir því.

Ég hef svo sem ekki lagst mjög náið í að velta fyrir mér hvort þetta frumvarp gæti svarað á einhvern hátt þeim vanda sem við vitum að er við að glíma víða í byggðum vegna hruns sparisjóðanna, ekki bara í Vestur-Húnavatnssýslu heldur víða um landið. Gleymum því ekki að 90% af efnahag sparisjóðanna í heild í landinu eru farin, má segja. Í fljótu bragði sá ég a.m.k. ekki að þetta frumvarp veitti sérstök úrræði við þessu.

Hin spurningin snerist um að niðurfellingu ætti ekki að skattleggja nema um væri að ræða gjafagerning. Það er í raun og veru það sem ég var að reyna að segja í ræðu minni áðan. Ég kallaði það reyndar örlætisgerning, sem ég hygg að sé nokkurn veginn sama hugtakið. Við erum auðvitað ekki að tala um að ekki eigi að skattleggja ef um er að ræða einhvers konar gjafa- eða örlætisgerning, það er eðlilegt að það fái einhverja skattlagningu. En um niðurfellingu sem felur eingöngu í sér (Forseti hringir.) að reyna að koma mönnum í þolanlega greiðslustöðu eða eignastöðu finnst mér gegna allt öðru máli.