138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[17:18]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrsta spurningin var um það hvort ég hefði reynslu eða þekkingu á því að bankar væru mjög örlátir við viðskiptavini sína varðandi niðurfellingar. Ég þekki svo sem ekki mörg dæmi um það, ekki nema það að bankar hafa tekið þátt í nauðasamningum á borð við aðra og ekki nema eðlilegur hlutur að menn geri það. Upp á síðkastið höfum við því miður séð dæmi um mjög undarlegar niðurfellingar og umræðan hefur verið á þann veg að ekki sitji allir við sama borð. Ég ætla í sjálfu sér ekki að dæma það, ég hef ekki nægilega þekkingu til þess en þetta er einn sá hlutur sem bankarnir verða að svara fyrir og verða að skýra með einhverjum hætti. Þetta mál snýst m.a. um traust almennings á fjármálastofnunum, þar með talið bönkunum. Bankarnir eru bara þannig að þeir eiga allt sitt undir trausti almennings og viðskiptavina sinna og þess vegna er gríðarlega mikilvægt að þessi mál séu öll skýrð.

Hv. þingmaður spurði mig líka um það hvað ég teldi að gerðist til að mynda í kjördæmi eins og mínu ef fjöldi bænda yrði gjaldþrota vegna stofnfjárfestinga. Það er augljóst mál að það getur haft hræðilegar afleiðingar. Við þekkjum t.d. Vestur-Húnavatnssýslu og Bæjarhrepp þar sem það hefur verið reiknað út, að ég hygg frá Byggðastofnun og Atvinnuþróunarfélaginu á Norðurlandi vestra, að skuldir vegna stofnfjárbréfa í Sparisjóði Keflavíkur frá þeim slóðum eru 3 milljarðar kr. en launatekjur á sama svæði eru um 2 milljarðar kr. Skuldirnar vegna stofnfjárbréfanna eru sem sagt 50% meiri en launatekjurnar í heild á þessu svæði. Það gefur því augaleið hvaða afleiðingar þetta hefur fyrir slík héruð og það getur hreinlega skapað vá í þeim byggðum þar sem svona hlutir ríða yfir.