138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[17:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Reyndar er það þannig gagnvart fyrirtækjum að ef niðurfelling skulda ætti að vera skattfrjáls þá gætum við lent í þeim vanda að fyrirtæki er með tap ár eftir ár og framreiknað tap vegna þess að skuldirnar hafa hækkað og hækkað. Ef skuldirnar eru svo lækkaðar og það kemur ekkert við tekjuskatt þá sitja þau áfram með tapið og eru farin að græða á þessu öllu saman. Ég held að gagnvart fyrirtækjum sé það allt í lagi af því að þau eru með vexti og vaxtagjöld sem gjöld og hafa fjármagnstekjur sem tekjur.

Gagnvart einstaklingum tel ég að það eigi aldrei að koma til að niðurfelling skulda sé tekjur, aldrei. Þegar fólk fær niðurfelldar skuldir þá er það þannig, af því að ég þekki kröfuhafa, þeir eru ekkert að gefa peninga — ef maðurinn á einhvers staðar eign setja þeir á hana fjárnám og ná í veð þar þannig að þeir gefa ekki eftir skuldir, af því að ég þekki kröfuhafa, nema maðurinn sé yfirveðsettur sem þýðir að þegar þeir gefa eftir skuldir er ekkert meira til, þá eru eignirnar jafnháar eða meiri en skuldirnar og það er ekkert til. Maðurinn á núll í nettóeign og þess vegna kæmi ekki til þess nokkurn tíma að hann fái niðurfellda skuld nema þegar eignin er komin í núll þannig að ég sé ekki hver vandinn er. Þetta ætti náttúrlega að vera þannig að það sé aldrei tekjuskattsskylt hjá manninum.