138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[17:34]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra tók dæmi áðan sem er erfitt að neita að gæti verið ósanngjarnt. Hann tók dæmi um mann sem tekur 100 millj. kr. lán fyrir húsi og fær þær síðan niðurfelldar. Af því spruttu hugmyndir og umræður. Hv. þm. Pétur Blöndal kom með bráðsniðuga hugmynd. Ef marka má orð hæstv. fjármálaráðherra eru í þeim skilyrði sem duga nær öllum, og af hæstv. ráðherra mátti skilja að það dygði öllum, til að fá undanþágu frá því að borga skatta af niðurfellingum. Þessi tillaga hv. þm. Péturs Blöndals hljómaði einhvern veginn á þá leið að niðurfærsla skulda telst ekki til tekna nema um gjafagjörning sé að ræða. Þá er augljóst að maðurinn sem fékk húsið gefins í gegnum niðurfærslu skulda hjá bankastjóranum sínum mun ekki njóta neinnar eignaaukningar ef þetta verður ákvæðið. Ég tel ákvæðið sanngjarnt vegna þess að það ástand sem ríkir í skuldamálum heimila og einstaklinga endurspeglar kerfishrunið sem varð í október 2008. Það er ómögulegt og ósanngjarnt að krefjast þess af borgurunum að þeir búi sig undir kerfishrun með einhvers konar ráðstöfunum. Þetta einfalda ákvæði verður að teljast sanngjarnt.

Síðan er annar mjög einfaldur kostur sem hvert barn skilur og ætti hvorki að vefjast fyrir skattyfirvöldum, skattborgurum né framteljendum. Það er augljóst hvenær um gjafagjörning er að ræða og hvenær raunverulega niðurfærslu skulda. Í þessu eru engin álitamál. Núverandi frumvarp kveður á um að vegna tiltekinna skilyrða gætu menn átt rétt á að sleppa undan skattlagningu niðurfellingar. Þetta er einfalt. Það þarf enginn að deila um hvað séu gjafagjörningar og hvað ekki. Einfaldleikinn er í þessu efni góður eins og svo mörgu öðru.

Þá er þetta gagnsætt. Menn geta algjörlega gengið að upplýsingum um hverjir geta notið þessa úrræðis og hverjir ekki, einfaldlega allir þeir sem hafa unnið sér einhvers konar rétt á niðurfærslu skulda við bankastofnanir. Hv. þingmaður orðaði það svo hnyttilega að hann þekkti marga kröfuhafa og þeir væru af þeirri gerð að þeir mundu reyna að ná til baka öllu því sem þeir hefðu lánað og helst meiru. Við getum treyst því að fjármálastofnanir munu ekki ganga um gefandi. Heilt yfir held ég að þetta sé einföld regla, sanngjörn og gagnsæ, og að allir þeir hópar sem ég nefndi áðan, sem telja kannski 15–20 þúsund manns þegar allir á heimilinu eru taldir, munu ekki falla milli skips og bryggju í þessu öllu saman.