138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[17:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Kröfuhafar vilja ekki afskrifa kröfur sínar, það er svona grundvallarregla alls staðar. Erlendu bankarnir sem búnir eru að afskrifa og hafa neyðst til að afskrifa 6 þús. milljarða í gegnum íslensk viðskipti eru ekki ánægðir með það, þeir neyddust til þess. Þegar nýju bankarnir voru stofnaðir og menn byrjuðu að tala um hvað ætti að borga á milli, hve hár afskriftasjóðurinn ætti að vera, var fyrirséð að það yrðu áratuga málaferli við kröfuhafa um hversu stór afskriftasjóðurinn, eða lítill, ætti að vera. Þeir vilja hafa hann sem minnstan af því að þá langar ekki til að tapa enn meiru. Þeir borga nefnilega afskriftasjóðinn. Þá langaði ekki til að tapa meiru en þeim 6 þús. milljörðum sem þeir eru búnir að afskrifa. Þess vegna var mjög snjallt hjá hæstv. fjármálaráðherra að setja nýju bankana undir gömlu bankana. Þá hvarf þetta deiluefni út vegna þess að þeir áttu þetta sjálfir. En þá skulu menn ekki vera hissa á því að það sé safaríkur hagnaður vegna þess að það er akkúrat það sem kröfuhafarnir ætluðu að fá í staðinn fyrir allt of stóran afskriftasjóð. Stór afskriftasjóður gerir það að verkum að bankarnir verða miklu tryggari, þeir hafa meira eigið fé, þeir sýna meiri hagnað og það er heilbrigðisvottorð fyrir bankana. Þetta útskýrir af hverju bankarnir eru með mikinn hagnað og af hverju þeir vilja ekki upplýsa um afskriftasjóðinn, af því að hann er í reynd allt of mikill, hann er öryggismegin í þessu. Og þess vegna kemur það ekki til greina af þeirra hálfu og mundi þýða málaferli ef það yrði almenn niðurfærsla til að nota afskriftasjóðinn í.