138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[18:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Gefum okkur að við samþykkjum hérna mjög góð frumvörp til að leysa vanda heimilanna og ég og hæstv. fjármálaráðherra verðum ægilega glaðir í kjölfarið og ég gæfi honum milljón krónur í gleði minni og hann gæfi mér milljón krónur í gleði sinni. Þá er hvort tveggja skattskylt. Við mundum borga um 370 þús. kr. hvor af þessari milljón þó að það sléttaðist út. Þetta er nefnilega ekki rökrétt. Það vantar inn í þetta gjöldin og þess vegna er órökrétt þessi grein sem Alþingi hefur sett og getur að sjálfsögðu breytt. Það vantar inn í hana að þeir sem tapa hlutabréfi, ævisparnaðinum, tíu milljónum gefum okkur, kemur ríkinu bara ekkert við. En ef þeir hagnast einhvers staðar eða fá niðurfelldar skuldir þá ætlar ríkið að fara að skipta sér af því.

Skattalög eru nefnilega órökrétt varðandi þessi atriði, fjármagnstekjur og fjármagnsgjöld hjá einstaklingum. Það var farin einföld leið við að skattleggja þetta allt með 10% og segja: Okkur koma fjármagnsgjöldin ekkert við. En þá mega menn ekki gleyma því þegar kemur að niðurfellingunum. Það eru nefnilega nákvæmlega sömu lögmál sem gilda um þær.

Svo vil ég minna á það sem ég sagði áðan, að kröfuhafar fella ekki niður skuldir nema þeir neyðist til þess — það er ekkert meir að hafa af þessum vini — sem þýðir það að ef ríkið ætlar að skattleggja manninn á eftir gæti það eyðilagt dæmið. Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvaða tilfelli eru það sem ekki falla undir lögin um niðurfellingu skulda sem ekki eru gjafagerningar? Það væri ágætt, af því að ég veit að ég fæ kannski ekki nákvæmt svar, að nefndin hefði til svar við þessu frá ráðuneytinu.