138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[18:12]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er nú með bestu hugmyndum sem ég hef heyrt lengi frá hv. þm. Pétri Blöndal, að við skiptumst á þessum gjöfum og ég fái af því myndarlegan skatt í ríkiskassann. Þetta er alveg afbragðshugmynd og ég legg til að menn fari út í þetta í sem allra ríkustum mæli.

Ef hv. þingmenn sem hér hafa talað þannig að 7. gr. tekjuskattslaga sé bara einhver allsherjarhugsunarvilla þá er sú hugsunarvilla ekki frá mér komin, hv. þm. Pétur Blöndal. (PHB: 1934.) Já, nákvæmlega, hún er frá því á fjórða áratug síðustu aldar og það er út af fyrir sig betra seint en aldrei ef sumir þingmanna Sjálfstæðisflokksins eru að uppgötva það nú að hún sé hugsunarvilla. En þeir hafa haft ærinn tíma til að breyta henni, verð ég að segja, og alla aðstöðu til þess að gera það. Skattalögin eru eins og þau eru og við erum að útfæra þessar ráðstafanir í samræmi við það.

Hvaða örlætisgerningar gætu átt við í þessum efnum? Nú tekur þetta til þeirra almennu skuldaráðstafana sem í gangi eru og reiknað er með að almennt eigi sér stað milli lánastofnana og einstaklinga en síður í þeim tilvikum þegar fyrirtæki fella rausnarlega niður lán til starfsmanna sinna, það er auðvitað þar fyrir utan og telst ekki til hefðbundinna skuldaniðurfellinga. Ég geri ekki ráð fyrir því að menn séu að biðja um t.d. að slíkar skuldaniðurfellingar án nokkurs tillits til eignastöðu viðkomandi, án nokkurs tillits til þess arðs sem þeir voru kannski búnir að fá áður en skuldaniðurfellingin átti sér stað sé undanskilið. En við getum ekki útilokað það og við vitum að framkvæmd einstakra fjármálafyrirtækja er mismunandi í þessum efnum og það virðist í sumum tilvikum vera þannig að mönnum hafi boðist talsverð skuldaniðurfelling án þess að horft væri til annarrar eignastöðu og án þess í raun og veru að verið væri mikið að horfa til þess hvort eign myndaðist strax í kjölfar skuldaniðurfellingarinnar. (Forseti hringir.) Ef þar er um mjög háar fjárhæðir að ræða gæti slíkt komið til skoðunar í anda þessa frumvarps.