138. löggjafarþing — 136. fundur,  10. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[18:57]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir andsvarið. Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson hefur haldið margar ræður einmitt um þetta mál á þinginu og ræddi sérstaklega um og gerði að tillögu sinni að við mundum fá t.d. úttekt OECD á okkar kerfi. Sömuleiðis fór hann yfir það að ákveðnir þættir sem ég ætla ekki að fara í hér hafi verið skoðaðir sérstaklega í Bandaríkjunum og tengist það manni sem heitir Volcker ef ég man rétt.

Því er skemmst frá að segja að við tókum þá hluti upp í hv. viðskiptanefnd og töldum að þetta væri nokkuð sem við ættum að skoða í tengslum við þessa nefnd ef menn væru ekki tilbúnir til að hafa það vinnulag sem við lögðum upp með, þ.e. að skoða þetta sérstaklega núna þangað til þing kemur saman aftur í haust. Ég vek athygli á því að það er mjög skammur tími þar til þing kemur saman í haust og sumartíminn er algjörlega vanmetinn þegar kemur að vinnu í máli eins og þessu.

Staðan er sú að við höfum ekki enn þá komið þessum málum inn sem hv. þingmaður vísaði til en til að sýna sanngirni vil ég geta þess að samt sem áður hefur verið tekið tillit til ýmissa athugasemda sem við gerðum þegar málið var í nefndinni á milli umræðna. Þetta er eitt af því sem við ættum kannski að gera eina tilraun með til viðbótar á hv. þingmönnum meiri hlutans í viðskiptanefnd, hvort þeir fallist á þessi sjónarmið okkar og/eða flytja þá bara sérstaka tillögu um það hér við lokaafgreiðslu málsins.