138. löggjafarþing — 136. fundur,  10. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[20:19]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir andsvarið. Eins og kom fram í máli hans lagði meiri hlutinn til að skipuð yrði nefnd sem m.a. mundi kanna þetta og fylgjast náið með þróun í umræðunni og hvort einhvers staðar mundi eitthvert land taka af skarið og aðskilja viðskiptabanka og lánafyrirtæki. Eins og hv. þingmaður benti á hefur ekkert land gert það en ekkert annað land hefur heldur orðið fyrir því að heilt bankakerfi hafi hrunið eins og hér gerðist.

Ég styð það að þessi nefnd verði skipuð. Ég bar þetta hins vegar undir hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og mér fannst hann ekki taka neitt sérstaklega vel í þessar hugmyndir og þar sem hann mun skipa þessa nefnd tel ég nokkuð ljóst að hann muni reyna að skipa í hana fólk sama sinnis og hann er sjálfur. Þá vitum við hver útkoman úr henni verður.