138. löggjafarþing — 136. fundur,  10. júní 2010.

tekjuskattur.

506. mál
[21:16]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Það er mikið gleðiefni að fá að mæla fyrir þessu litla máli hér í kvöld. Það er hluti af margvíslegum aðgerðum til þess að örva atvinnustarfsemi í landinu og hagkerfið og felur í sér ívilnun fyrir fólk á tekjuskatti vegna framkvæmda við eigið íbúðarhúsnæði og sumarhús og felur þá í sér frekari skref en þau sem tekin voru þegar ákveðið var að endurgreiða að fullu virðisaukaskatt við slíkar framkvæmdir. Frumvarpið miðar að því að 300 þús. kr. ívilnun komi til frádráttar tekjuskattsstofni í tengslum við slíkar framkvæmdir og hefur tekið lítillegum breytingum í meðhöndlun nefndarinnar. Það má finna nefndarálitið á þskj. 1264.

Þær breytingar snúa fyrst og fremst að því að mæta athugasemdum sem komu fram frá embætti ríkisskattstjóra sem taldi sig ekki hafa aðstæður til þess að annast um framkvæmdina eins og hún var lögð til í frumvarpinu eða hafa eftirlit með henni auk þess sem okkur þótti það vera nokkuð umhendis að tvö kerfi svo að segja væru utan um skattaívilnanir vegna sömu framkvæmdanna, annars vegar virðisaukaskattsmegin hjá tollstjóra og hins vegar tekjuskattsmegin hjá ríkisskattstjóra og að skattgreiðendur þyrftu þá að framvísa gögnum á tveimur stöðum og sækja til tveggja aðila o.s.frv. Í góðri samvinnu við fjármálaráðuneytið hafa þessir agnúar verið sniðnir af málinu og búinn til farvegur þannig að skattgreiðendurnir geta útfyllt eina umsókn og byggt á einum og sömu gögnunum til allrar einföldunar fyrir framkvæmdina.

Þetta frumvarp tekur þegar gildi og gildir fyrir árið í ár. Þeir njóta góðs af því sem hafa ráðist í framkvæmdir á þessu ári og þeir sem byrja seinna á árinu. Þetta verður vonandi til þess að fleiri sjái sér fært að ráðast í slíkar framkvæmdir en þær eru eins og við þekkjum talsvert atvinnuskapandi miðað við það sem verið er að setja í þær og það gildir sömuleiðis fyrir næsta skattár, árið 2011.

Virðulegur forseti. Ég held að það sé ekki ástæða til þess að orðlengja um þetta frekar en fyrst og fremst að vekja athygli á því að með lögfestingu þessa máls eru komnar fram enn frekari ívilnanir til fólks vegna framkvæmda við húsnæði sítt.