138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

vatnalög og réttindi landeigenda.

[12:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég held að það sé rangt hjá hv. þingmanni að miklar deilur hafi staðið um það hvað í reynd fólst í vatnalögunum illræmdu sem samþykkt voru á sínum tíma. Það kann vel að vera að Sjálfstæðisflokkurinn hafi reynt að setja slikju yfir hvað þar var verið að gera, svo sannarlega gerði Framsóknarflokkurinn það á þeim tíma. Það sem þá var gert var ekkert annað en að slá einkaeignarrétti á allt vatn á Íslandi. Það var það sem ég var á móti og hinn nýi Framsóknarflokkur í dag, sem vill ekkert vita af villu fortíðarinnar, hlýtur líka að vera á móti. Ég tel þess vegna að það sé mjög þarft verk að afnema þessi lög og nota tækifærið til að gera það núna.

Á sínum tíma tókst ákveðið samkomulag um meðferð þessa máls. Eins og hv. þingmaður sagði fólst það í því að skipuð var nefnd til að vinna þessi mál og eftir því sem ég best man gerði hún það á grundvelli vatnatilskipunarinnar. Það var ekki mikill ágreiningur um hvað ætti að gera, leggja fram nýtt frumvarp sem tæki mið af þeim ákvæðum sem var að finna í vatnatilskipuninni. Sömuleiðis var heldur ekki ágreiningur um það sem Sjálfstæðisflokkurinn var að gera að deiluefni núna, þ.e. að afnema þessi vitlausu lög frá 2006.

Ég tel að lögin frá 1923 sem áður voru í gildi hafi staðist fyllilega tímans tönn og ég get vel verið sáttur við að hafa þau óbreytt til eilífðar. Þau byggðust á Grágás. Þau byggðust á því að almenningur hafði aðgang að vatninu og í reynd var þetta sameiginleg auðlind. Afstaða þessarar ríkisstjórnar er að vatnið eigi að vera í almannaeigu en ekki, eins og hv. þingmaður og formaður Sjálfstæðisflokksins virðist vilja, sett undir einkaeignarrétt og þess vegna (Forseti hringir.) geti menn gert hvað sem þeir vilja við það. Það er ágreiningur um grundvallaratriði í hugmyndafræðinni og ég held að (Forseti hringir.) hv. formaður Sjálfstæðisflokksins standi aleinn í þessu, (Forseti hringir.) því að ekki trúi ég að hinn nýi Framsóknarflokkur (Forseti hringir.) styðji hann.