138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

vatnalög og réttindi landeigenda.

[12:09]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Eins og ég vék að í fyrri ræðu minni eru 60–70% allra vatnsréttinda í landinu hjá ríkinu og opinberum aðilum, eins og sveitarfélögum. En það er rangt hjá hæstv. utanríkisráðherra að við tölum fyrir því að slá einkaeignarrétti á öll vatnsréttindi í landinu. Hér er einfaldlega um það að ræða að ráðherrann mælir fyrir því að öll vatnsréttindi í landinu komist í almannaeign. Það mun þýða eignaupptöku. Eða hvað er annars maður eins og Jón Ólafsson, sem flytur út vatn frá Íslandi, að gera annað en borga landeigandanum gjald fyrir að fá vatn á landi hans? Borgar hann það gjald til ríkissjóðs? Ekki kannast ég við það. Hvað hefur Landsvirkjun verið að gera í gegnum tíðina þegar greiddar hafa verið eignarnámsbætur til landeigenda til að fá að nýta þau vatnsréttindi sem þar eru undir? Við þurfum að halda okkur við þau lög sem gilt hafa í landinu, nema ríkisstjórnin ætli núna að fara út í eina allsherjarþjóðnýtingu allra vatnsréttinda sem eru í einkaeign (Forseti hringir.) á grundvelli laga, sem hafa gilt í margar aldir. (Forseti hringir.) Ég heyri ekki annað en að ríkisstjórnin sé að boða þjóðnýtingu þeirra réttinda. (Gripið fram í.)