138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

aðgangur að framhaldsskólum.

[12:18]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Ég beini til hæstv. menntamálaráðherra fyrirspurn sem tengist breyttu fyrirkomulagi um aðgang að framhaldsskólum landsins.

Í lögum um framhaldsskóla segir að þeir sem hafi lokið grunnskólanámi, hafi hlotið jafngilda undirstöðumenntun eða náð 16 ára aldri eigi rétt á að hefja nám í framhaldsskóla. Þeir eiga jafnframt rétt á því að stunda nám í framhaldsskóla til 18 ára aldurs vegna fræðsluskyldu við ólögráða nemendur. Allir nemendur eiga rétt á námi við sitt hæfi í samræmi við óskir og hæfni. Áður en kom til innritunar nú í vor var framhaldsskólinn eitt um allt land, allir nemendur höfðu jafnan aðgang að framhaldsskólunum og gátu sótt um þann skóla sem þeir óskuðu að stunda nám í. Þetta eru 16 ára unglingar að öllu jöfnu, en þetta eru unglingar sem hafa lokið grunnskólaprófi, ungt fólk sem er að hefja framhaldsnám og ungt fólk sem veit hvað það vill. Það hefur fram til þessa getað ráðið því um hvaða framhaldsskóla það sækir. Í vor breytti hæstv. menntamálaráðherra einhverra hluta vegna innritunarferlinu og fór í átt að gamla kerfinu, að nú séu hverfisskólar, framhaldsskólinn er orðinn hverfisskóli og þá ræður búseta, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, því í hvaða framhaldsskóla nemendur geta farið.

Ég spyr hæstv. menntamálaráðherra: Hvers vegna í ósköpunum þarf ríkið að beita þessari forsjárhyggju gagnvart 16 ára nemendum sem óska eftir að stunda framhaldsnám, að ríkið ákveði í hvaða skóla þeir fara?