138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

aðgangur að framhaldsskólum.

[12:20]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir nefnir réttilega að með nýjum framhaldsskólalögum var kveðið á um fræðsluskyldu ríkisins gagnvart nemendum að 18 ára aldri. Staðreyndin er sú að við innritun í fyrra, þegar u.þ.b. 96% 10.-bekkinga sóttu um nám í framhaldsskóla, fengu því miður yfir 200 nemendur, til að mynda í Reykjavík, ekki námsvist í neinum þeirra fjögurra skóla sem þeir sóttu um í. Á þriðja hundrað ólögráða nemendur sem höfðu stundað nám í framhaldsskólum fengu ekki áframhaldandi skólavist fyrr en ráðuneyti menntamála hafði hlutast til um mál þeirra og tryggt þeim skólavist. Í raun fór allt sumarið í að ljúka innritun í framhaldsskóla, eins og hv. þingmönnum er eflaust í fersku minni. Ég taldi nauðsynlegt og í raun ábyrgð menntamálaráðuneytisins að fara yfir þetta fyrirkomulag.

Það var stofnaður samráðshópur skólameistara grunnskóla og framhaldsskóla sem og Landssamtaka heimilis og skóla og síðar í því ferli bættust við nemendur úr ráðgjafarhópi umboðsmanns barna um hvernig við gætum farið yfir þetta kerfi. Niðurstaðan varð sú að taka upp blandað kerfi. Það er ekki alveg rétt að það hafi verið bakkað til hverfisskóla eins og þeir voru fyrir 1996, þegar þeir voru hverfisskólar, heldur var tekin upp sú regla að skólum yrði gert að geyma 45% námsplássa í skólum sínum fyrir nemendur á upptökusvæði sínu. Nemendur á því svæði eiga því yfirleitt val um 2–3 hverfisskóla.

Staðreyndin er sú að þetta tengist fyrst og fremst Reykjavík. Framhaldsskólar utan Reykjavíkur eru langflestir með nemendur af nærsvæðum sínum í 60% og upp í 100% af sínum plássum. Hér í Reykjavík, þar sem eru margir skólar, hefur þetta verið erfitt. Við breyttum reglunum líka þannig að nú er tekin upp svokölluð forinnritun mun fyrr í ferlinu, í apríl, þar sem nemendur sækja þá um (Forseti hringir.) tvo skóla og fá síðan náms- og starfsráðgjöf til að vísa sér áfram. Með þessu erum við að reyna að koma í veg fyrir þann vanda sem skapaðist í fyrra til að geta uppfyllt (Forseti hringir.) lög um fræðsluskyldu.