138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

aðgangur að framhaldsskólum.

[12:23]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Hæstv. menntamálaráðherra segir að til þessa hafi verið gripið vegna stöðunnar í Reykjavík. Það er framhaldsskóli í Hafnarfirði, annar í Garðabæ, enn einn í Kópavogi, það eru framhaldsskólar í Reykjavík og það er kominn framhaldsskóli í Mosfellsbæ. Oftar en ekki hefur verið horft til þess að Stór-Reykjavíkursvæðið sé eitt skólasvæði, í það minnsta hafa nemendur á svæðinu horft til þess.

Við þekkjum hvernig er að búa á Ísafirði. Menn hafa lítið annað val en að fara í Menntaskólann á Ísafirði nema flytja burtu eins og var á árum áður þegar maður þurfti þess sjálfur.

Ég ítreka enn og aftur: Er engin önnur leið fær í þessu en þessi? 45% þýðir að nemendur af Seltjarnarnesi eiga rétt á (Forseti hringir.) vist í Kvennaskólanum eða Menntaskólanum í Reykjavík. Ræður sú hugsun sem menntamálaráðherra (Forseti hringir.) talaði um áðan, að verið væri að tryggja ólögráða nemendum (Forseti hringir.) skólavist, eða ræður þrýstingur frá ákveðnum foreldrum (Forseti hringir.) í Reykjavík sem vildu börnin sín inn í ákveðinn (Forseti hringir.) skóla en komu þeim ekki þar að?