138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

aðild Íslands að ESB.

[12:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það var afar athyglisvert að heyra hæstv. utanríkisráðherra tala áðan um villur fortíðarinnar, það er alltaf gaman að heyra gamla allaballa tala um villur fortíðarinnar, ekki síst þegar þeir telja sjálfa sig hafa frelsast. Svo er annað sem vakti líka athygli mína um daginn, það var orðið „orðsporsáhætta“ sem ég kynntist nýlega. Ég hugsa að ef slík áhætta yrði lögð á hæstv. utanríkisráðherra yrði hún býsna há.

Mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra út í viðtal um Evrópusambandið sem var sýnt í fréttatíma RÚV í gærkvöldi. Þar er rætt við einn helsta sérfræðing Þýskalands um Norðurlöndin og Evrópusambandið. Hann segir að það séu engar líkur á að Ísland gangi í Evrópusambandið eins og staðan er í dag og færir mikil og góð rök fyrir að slíkt muni væntanlega ekki gerast. Hann kemur m.a. fram með hvað það er sem þjóðir sækjast virkilega eftir á Íslandi og nefnir náttúruauðlindirnar, hann nefnir endurnýjanlegar orkuauðlindir og legu landsins. Er ekki einmitt ástæðan fyrir því að Þjóðverjar og hugsanlega aðrar bandalagsþjóðir eru tilbúnar að liðka fyrir inngöngu eða aðlögun Íslands að þessu bandalagi sú að þær ásælast þessar auðlindir? Það kemur fram í þessu viðtali við þennan ágæta mann.

Í þessu sama viðtali, hæstv. ráðherra, kemur fram að Evrópusambandið vilji gjarnan að nýjar aðildarþjóðir sýni vilja til að laga sig að ESB til lengri eða skemmri tíma. Snýst ekki málið einmitt um það að verið er að innlima Ísland í Evrópusambandið ef þetta verður að veruleika?

Þá kemur næsta spurning, hæstv. ráðherra: Er ekki rétt í ljósi þess að helstu sérfræðingar í Þýskalandi telja að ekkert verði af þessu að hætta nú þessu rugli og draga umsóknina til baka núna í dag?