138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

ummæli þingmanns um ráðherra.

[12:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er helst til mikið um uppljóstranir í þingsal, en ég ætla ekki að ræða þær og ætla að hlífa hæstv. utanríkisráðherra við spurningum í tengslum við þau mál.

Ég vildi hins vegar spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra út í ákveðið mál sem hefur ekki farið hátt í umræðunni, enda þykir sundurlyndi í ríkisstjórninni og í ríkisstjórnarflokkunum ekki fréttnæmt. Þó vakti athygli mína og fleiri þegar einn af helstu og mestu þungavigtarmönnunum í stjórnarliðinu, manneskja sem þekkir málaflokk sinn, viðskiptamálin, út og inn, hv. þm. Lilja Mósesdóttir, deildi því með þjóðinni að hún vildi fá annan hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og taldi að núverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hlustaði ekki á kjósendur þegar hann talaði gegn leiðréttingu á stökkbreyttum höfuðstól, auk þess sem hann neitar að beita ráðherravaldi sínu til að koma í veg fyrir að skúffufyrirtæki eignist HS Orku. Við allar eðlilegar aðstæður hefði orðið mikil umræða um þessa málefnalegu en hörðu gagnrýni frá hv. þingmanni. Ég hefði áhuga á að fá að heyra sjónarmið hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra við þessum ummælum sem eru tvenns konar eins og ég nefndi hér, mæld alveg sérstaklega, en hins vegar er líka svolítið sérstakt að heyra helstu forustumenn í stjórnarliðinu fara fram á það að það verði ráðherraskipti eins og hér er um að ræða.

Virðulegi forseti. Mér þætti gott að heyra sjónarmið hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra gagnvart þessum ummælum.