138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

ummæli þingmanns um ráðherra.

[12:35]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Frú forseti. Litlu verður Vöggur feginn. Hér á að taka tíma á hinu háa Alþingi til að ræða athugasemdir á hinni svokölluðu snjáldurskjóðu sem heitir á erlendu tungumáli Facebook og það er ágætt að forgangsröðun þingsins skuli vera svo góð að það sé tími í þetta.

Fólk á Íslandi, hvort sem það eru þingmenn eða aðrir, hefur málfrelsi, þar á meðal frelsi til að gagnrýna samstarfsfólk, hvort sem það eru ráðherrar eða þingmenn og getur gert það á þeim vettvangi sem það kýs. Þeir sem það gera verða auðvitað að standa við sín ummæli sjálfir, en þeir sem ummælunum er beint að hljóta að geta kosið sjálfir hvort þeir svara þeim eða ekki. Ég hef tekið þá afstöðu í þessu máli að leyfa þessum ummælum að tala fyrir sig sjálf og hef hvorki í huga að munnhöggvast við hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson né hv. þm. Lilju Mósesdóttur um þau.