138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

ummæli þingmanns um ráðherra.

[12:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég man ekki áður eftir að hafa heyrt hæstv. ráðherra segja að það væri lítið mál þegar forustumaður í stjórnarliðinu vildi skipta viðkomandi hæstv. ráðherra út. (Gripið fram í: … skipta þér út.) (Gripið fram í: Hvað þá Jóhönnu.) Ég verð að viðurkenna að mér þykja þessi svör nokkuð sérstök, að halda hér ræðu um að allir hafi málfrelsi. Það er sérstakt að heyra það, ég vissi ekki til þess að það væri neitt til umræðu eða að eitthvað annað kæmi til greina. Þó að hæstv. forsætisráðherra hafi sagt að við yrðum að líta til Kína ætla ég ekki ríkisstjórninni að fara þangað. Það vita allir að við erum með málfrelsi og það stendur ekki til að breyta því. Þetta er hins vegar efnisleg gagnrýni. Hún snýr ekki bara að því að hv. þingmaður vill skipta um ráðherra, heldur líka að tveim efnisatriðum. Auðvitað eiga kjósendur rétt á því að fá málefnaleg svör frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Hann getur ekki vikið sér undan því. Annars vegar hefur hæstv. ráðherra verið gagnrýndur fyrir að vilja ekki (Forseti hringir.) grípa inn í málefni Magma Energy og HS Orku og hins vegar (Forseti hringir.) vegna skuldamála fyrirtækja og einstaklinga.