138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

svar við fyrirspurn.

[12:45]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að benda hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur á að yfirleitt ákveður forseti hvað á við í þessari umræðu og hvað ekki og ég tel hana fullfæra um það. Ég bendi hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur á að hún gæti jafnvel fengið í gegnum þingflokk sinn stöðu eins af varaforsetum þingsins ef hún vill skipta sér af fundarstjórninni.

Hvað varðar ummæli hv. þm. Skúla Helgasonar um að Karli Axelssyni hafi þrívegis verið boðið að koma fyrir nefndina lét hann þess ógetið að Karl Axelsson sendi ritara nefndarinnar tölvupóst í gær þar sem hann bauðst til þess að koma á fundinn í morgun og hitta nefndina áður en málið yrði tekið út, vegna þess að hann hafði ekki komist fyrr vegna veikinda.