138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl.

485. mál
[12:55]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég kem upp til að fagna þeim merka áfanga sem hér er náð. Það er gríðarlegt fagnaðarefni að nú skuli þetta baráttumál samkynhneigðra í höfn. Það er verið að setja ein hjúskaparlög fyrir alla í landinu, það er mikill áfangi. Þess er þó gætt í þeim breytingum sem hér eru á ferðinni að þeir vígslumenn sem kjósa að gefa ekki saman pör af einhverjum ástæðum eða telja það ganga gegn trúarsannfæringu sinni geta það. Það er í sjálfu sér engin breyting frá því sem nú er vegna þess að vígslumönnum er þetta heimilt hvort sem um er að ræða pör af gagnstæðu kyni eða ekki.

Ég fagna þessu máli sérstaklega og óska Íslendingum til hamingju með breytinguna.