138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

mat á umhverfisáhrifum.

514. mál
[13:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég er ekki ósammála kjarnanum í ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar en þannig var að ég og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson skrifuðum undir sameiginlegt nefndarálit úr umhverfisnefnd í þessu máli á þeirri forsendu að þrátt fyrir að um lengingu á venjulegum kærufresti væri að ræða úr tveimur mánuðum í þrjá væri það engu að síður, ef staðið yrði við þann frest, mikil framför frá núverandi ástandi þar sem kærur hafa verið til meðferðar í umhverfisráðuneytinu mánuðum saman hvað eftir annað og nánast aldrei staðið við fresti. Við leggjum áherslu á að fresturinn verði rýmkaður lítillega en ef hæstv. ráðherra telur sig þurfa lengri frest þurfi hann að tilkynna aðilum það með sérstökum rökstuðningi. Við teljum að með þessu móti veitum við hæstv. ráðherra meira aðhald (Forseti hringir.) en er samkvæmt núgildandi lögum.