138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

lokafjárlög 2008.

391. mál
[13:18]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Í kjölfar bankahrunsins kom í ljós að Seðlabanki Íslands átti útistandandi kröfur á fjármálafyrirtæki upp á um 345 milljarða kr. Í lokafjárlögum ársins 2008 er verið að afskrifa um 192 milljarða af þeim kröfum. Þetta eru gríðarlegir fjármunir sem ríkisstofnun hefur tapað og ekki hefur enn verið óskað eftir því að gerð verði stjórnsýsluúttekt á viðkomandi stofnun. Mér finnst ótrúlegt að Alþingi skuli vera að afgreiða lokafjárlög þessa árs án þess að búið sé að upplýsa nákvæmlega hvað gerðist. Að vísu höfum við þá staðreynd að fjórflokkurinn hefur raðað flokksgæðingum sínum á jötuna í bankaráð Seðlabankans áratugum saman og prinsum sínum í stjórn Seðlabankans. Það gæti verið ástæðan en ég leyfi mér að vonast til þess að tímar séu breyttir og að Alþingi hafi kjark til að breyta til og láta rannsaka hvað þessir menn og starfsmenn Seðlabankans voru að gera.